Orri Páll og Sif aðstoða Guðmund Inga

Sif Konráðsdóttir og Orri Páll Jóhannsson hafa verið ráðin aðstoðarmenn …
Sif Konráðsdóttir og Orri Páll Jóhannsson hafa verið ráðin aðstoðarmenn Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Orri Páll Jóhannsson og Sif Konráðsdóttir hafa verið ráðin aðstoðarmenn Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra. Þau hefja störf á næstu dögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Orri Páll Jóhannsson er búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og með BSc-gráðu í vistfræði og stjórnun náttúrusvæða frá Umhverfis- og lífvísindaháskóla Noregs á Ási. Undanfarið hefur hann einnig stundað meistaranám í hagnýtri siðfræði, með áherslu á umhverfis- og náttúrusiðfræði, við Háskóla Íslands.

Orri Páll hefur undanfarin ár starfað sem landvörður og var m.a. starfandi þjóðgarðsvörður á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs frá janúar 2016 til júní 2017. Þá var hann verkefnisstjóri Skóla á grænni grein (Grænafánaverkefnisins) hjá Landvernd frá 2008 til 2012. Hann er varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavíkurkjördæmi suður og á sæti í flokksráði og stjórn Reykjavíkurfélags VG.

Orri Páll er í sambúð með Jóhannesi Elmari Jóhannessyni Lange.

Sif Konráðsdóttir lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1988. Hún starfaði sem sérfræðingur á ríkisaðstoðarsviði Eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel 2008 - 2015 en var áður sjálfstætt starfandi lögmaður í Reykjavík og hefur undanfarin tvö ár starfað við lögmennsku og ráðgjöf á sviði matvælaöryggis og umhverfismála, m.a. fyrir Landvernd.

Sif hefur verið stundakennari við HÍ og á lögmannanámskeiðum og sinnt margháttuðum trúnaðar- og félagsstörfum fyrir lögmannastéttina og íslensk stjórnvöld. Hún var meðal stofnenda félags kvenna í lögmennsku og fyrsti formaður þess.

Sif er gift Ólafi Valssyni dýralækni og eiga þau samtals fjögur börn og tvö barnabörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert