Á stolinni vespu og með dóp

mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan hafði afskipti af pari á vespu í Kópavogi um klukkan 22 í gærkvöldi. Maðurinn viðurkenndi að vespan væri stolin og við leit á heimili hans fundust fíkniefni. Lögreglan þurfti einnig að hafa afskipti af öðru pari í Árbænum skömmu fyrir átta í gærkvöldi.

Í dagbók lögreglunnar segir að parið sé óreglufólk og tilkynnt hafði verið um teiti á heimili þeirra. Þegar lögreglan kom á vettvangi afhenti einn gestanna lögreglu fíkniefni sem hann var með á sér.

Lögreglan stöðvaði för ökumanns við Arnarbakka um klukkan 21 í gærkvöldi. Ökumaðurinn reyndist vera réttindalaus en hann hefur aldrei öðlast ökuréttindi. Þrátt fyrir það hefur lögreglan ítrekað stöðvað hann undir stýri. Lögreglan lagði hald á lykla bifreiðarinnar þannig að hann ók ekki meira þetta kvöldið.

Skömmu fyrir miðnætti var bifreið stöðvuð við Víkurveg. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, aka sviptur ökuréttindum og vörslu fíkniefna. Bifreiðin reyndist ótryggð og voru skráningarmerki hennar því fjarlægð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert