Samkennari beið á nærbuxunum uppi í rúmi

737 konur í menntageiranum skrifuðu undir yfirlýsingu sem send var …
737 konur í menntageiranum skrifuðu undir yfirlýsingu sem send var út í dag.

„Í starfsmannaferð erlendis var veskistöskunni stolið, seint um árshátíðarkvöld. Ég fæ lobbystrákinn til að fylgja mér og opna fyrir mér þar sem lyklarnir voru í veskinu. Þar bíður samkennari á nærbuxunum, uppi í rúmi, án sængur, hvítvín bíðandi á borðinu,“ segir í frásögn konu úr menntageiranum sem er ein þeirra sem birta sögu sína nafnlaust undir myllumerkinu #MeToo.

737 konur úr menntageiranum undirrituðu yfirlýsingu sem send var út í dag þar sem þær krefjast þess að fá að vinna sína vinnu án áreitni, ofbeldis og mismununar. Samhliða voru birtar 34 reynslusögur.

Eftir að konan hafði komið að samstarfsmanni sínum á nærbuxunum á hótelberginu, þangað sem hann hafði augljóslega komist með því að taka veskið hennar, ráðfærði hún sig við trúnaðarmann. Í kjölfarið sagði hún skólastjórnendum frá atvikinu og rætt var við starfsmanninn. Hann neitaði og sagði að konan hefði boðið honum upp á herbergi sitt.

„Stjórnendum og trúnaðarmanni fannst ég ekki eiga völ á neinu nema kannski setjast niður með manninum og fronta hann, þetta væri orð á móti orði. Einnig hafði ég skemmt fyrir trúverðugleika mínum með því að trúa öðrum fyrir þessu. NB það voru vitni að þessu en ég er sú sem er „unstable“ í augum stjórnenda, eða það virkar þannig allavega.“

Fór með höndina beint í klofið

Önnur kona greinir frá óviðeigandi hegðun samstarfélaga í útlöndum. Hegðun sem virðist þó ekki hafa einskorðast við útlönd.

„Samstarfsmaður hefur spurt í skólaheimsókn erlendis hvort ég ætli að koma upp á herbergi að ríða. Seinna sagðist hann alltaf vera að horfa á rassinn á mér á kennarastofunni og í þónokkur skipti gerði hann rassinn á mér að umræðuefni, að ég yrði að kaupa mér þröngar buxur því hann gæti þá hugsað um mig þegar hann rúnkaði sér. Svo þegar hann frétti að ég væri að hitta mann sem hann kannast við tilkynnti hann mér á gangi skólans hvað sá væri nú heppinn að fá að negla mig. Sá sami frétti að ég hefði sagt frá þessu og hefur síðan þá hunsað mig markvisst. Ég er nýbúin að tilkynna þetta og bíð svo bara með hnút í maga.“

Þá greinir kona frá ítrekuðum óviðeigandi spurningum frá samstarfsfélaga um hvort hún og kærastinn hafi tekið á því alla nóttina í kynlífi og hvort hún væri þreytt. Konan segist þó hafa hlegið að þessum athugasemdum þangað til maðurinn fór yfir strikið á jólaskemmtun fyrirtækisins fyrir nokkrum árum. Þar hafi maðurinn, sem var giftur, flögrað á milli kvenna en svo sest hjá henni og sagt henni að hún væri langfallegasta konan á svæðinu. Konunni fannst þetta óviðeigandi tal af manni í sambandi en þakkaði þó fyrir.

„Seinna um kvöldið fórum við nokkur saman á bar. Ég stóð við röðina á barnum í stuttum kjól og var að panta drykki þegar hann kom aftan að mér þrýsti sér að mér og fer með höndina á bólakaf undir allt og beint í klofið á mér. Ég fraus en náði svo að hreyta í hann og ýta honum frá mér. Ég talaði ekki við hann um kvöldið meira, en á mánudeginum bað hann mig afsökunar sem ég meðtók enda ómögulegt að vinna með fólki í leiðindum.“

Konan segir manninn þó hafa haldið áfram að daðra við konur á vinnustaðnum. Nýlega hafi hún svo hitt mann sem sé að vinna með þessum manni í dag. Barst hann í tal og kom í ljós að hann hagar sér enn á sama hátt og á gamla vinnustaðnum. „Það er sorglegt að hugsa til þess að ennþá 13 árum seinna sé hann að áreita konur á vinnustað.“

Togaði í G-strengi og brjóstahaldara

Ein kona greinir frá því að hafa orðið vitni að því að karlkyns kennari áreitti ítrekað nemendur sína

„Sú áreitni og hvernig brugðist var við henni situr í mér. Það var m.a. einn kennari sem átti til að tosa í g-streng og brjóstahaldara stelpnanna og láta smella í. Ég ræddi þetta við hann og skólastjóra en það var ekkert gert með það. Þetta þótti honum fyndið og notaði frasann um að það mætti orðið ekkert í dag og að karlkennarar lægju alltaf undir svona dómum vegna kynferðis (sem er alls ekki reynsla mín því flestir þekkja mörkin vel).“

Konan segir sama kennara oft hafa setið með stelpur, gjarnan með félagslega veikan bakgrunn, í fanginu.

„Einu sinni kom umsjónarnemandi minn til mín og sagðist aldrei aftur ætla í tíma til hans því hann hefði strokið henni þannig í tíma. Alltaf lét ég stjórnendur vita en hann komst lengi upp með þetta. Það var annars konar mál gagnvart dreng sem hafði þau áhrif að hann hætti störfum hjá þeim skóla sem ég vann í.“

Hlýtur að vera í lagi því hann er svo myndarlegur

Fleiri en ein greina frá óviðeigandi hegðun foreldra leikskólabarna í sinn garð. Ein segir frá því að hún hafi komið inn í fataklefa þar sem hún sá að faðir drengs vara að sækja hann.

„Faðir hans var á hækjum sér að tala við drenginn þegar ég kom æðandi að. Ég byrjaði á að segja við drenginn að hann væri aldeilis heppinn að pabbi kæmi að sækja hann svona snemma þennan daginn. Þá stóð pabbinn upp smellti kossi beint á munninn á mér um leið og hann sagði: „Nei, hæ ástin mín, mikið ertu fín í dag.“ Ég sem verð aldrei orðlaus hvítnaði upp og gekk inn á deildina án þess að segja orð. Vinkona mín varð vitni að þessu og sagði að hún hefði aldrei fyrr séð mig orðlausa.“

Eftir þetta reyndi konan að forðast manninn eins og hún gat, hljóp fram af deildinni þegar hún sá hann koma að sækja soninn og faldi sig frammi á gangi. Hún lenti þó aftur í honum.

„Einn daginn var ég svo að aðstoða barn við að reima skóna. Sat á kolli og hallaði mér fram. Ég fann þá skyndilega að einhver er að strjúka mér fimlega um mjóbakið. Ég þorði ekki að hreyfa mig og gat ekki ímyndað mér hver þetta var. Lét mér detta í hug að þetta væri fyrrverandi maðurinn minn að koma með dóttur okkar í skólann. Ég stóð svo upp og sá sama mann og hafði kysst mig áður standa yfir mér. Ég varð svo hissa að það eina sem ég gat sagt var: „Varst þetta þú?“ Hann glotti og labbaði í burtu.“

Konan hélt áfram að reyna að fela sig fyrir manninum alla leikskólagöngu barna hans og fannst hún ekki upplifa skilning af hálfu samstarfsfélaga vegna málsins.

„Það erfiðasta við þetta fannst mér að mæta ekki skilningi allra samstarfsfélaga þegar ég ræddi þetta mál. Mjög margir hlógu og sögðu að hann væri nú svo myndarlegur að þetta hlyti að vera í lagi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert