Þöggun beitt gegn starfsfólki spítalans

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, sagði í umræðu um fjárlagafrumvarpið í dag að þöggun væri beitt gegn starfsfólki Landspítalans. Hann sagði að starfsfólk mætti ekki tjá sig um nýjan Landspítala á nýjum stað. Gunnar sagði þetta hafa komið fram á fundi um spítalann sem haldinn var í Norræna húsinu í kosningabaráttunni. Spurði hann Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra hvort hún hygðist beita sér fyrir því að þetta yrði kannað.

Þá vísaði Gunnar Bragi í fyrirspurn sinni einnig til orða sem heilbrigðisráðherra lét falla í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra í gær.

„Hún sagði í gær að það þyrfti að bjarga heilbrigðiskerfinu eftir áratuga vanrækslu og koma því þannig fyrir að fyrir að það myndi ekki lenda í höndunum á peningaöflunum. Við hvað á ráðherrann? Er ráðherrann að tala um þá staðreynd að Framsóknarmenn, Sjálfstæðismenn  og Vinstri græn hafa farið með heilbrigðisráðuneytið síðustu áratugi? Er hún að tala um að of mikil einkavæðing hafi átt sér stað, að Sjálfstæðismenn hafi ráðið of miklu í heilbrigðiskerfinu hér á Íslandi? Er það sem ráðherrann er að tala um?“

Það stóð ekki á svari hjá Svandísi: „Ég veit að háttvirtum þingmanni þætti mjög skemmtilegt að særa það fram hjá mér að mér þættu Sjálfstæðismenn hafa ráðið of miklu of lengi og það er auðvitað mín skoðun og hefur verið mjög lengi. Það er mér ofarlega í huga og framarlega á tungu,“ sagði hún og uppskar hlátur í huga.

Hvað meinta þöggun starfsfólks Landspítalans varðar sagðist ráðherrann ekki hafa heyrt um hana. Hún sagðist funda með forstjóra spítalans í hverri viku og sagði ekki ólíklegt að hún tæki málið upp á þeim fundum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert