Varð gjöf í lífi séra Örnu

Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur á Reynivöllum sést hér á milli forseta …
Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur á Reynivöllum sést hér á milli forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar og biskups Íslands, Agnesar Sigurðardóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Drengur sem fæddist á eldhúsgólfinu í móttökumiðstöð fyrir hælisleitendur 1994  varð gjöf í lífi Örnu Grétarsdóttur, sóknarprests á Reynivöllum. Því hann er tengdasonur hennar og faðir dótturdóttur hennar. Arna gerði flóttafólk og Me too-byltinguna að umtalsefni við setningu Alþingis í gær.

Hún hóf predikun sína í Dómkirkjunni í gær með því að fara með kirkjugesti aftur til ársins 1994.

„Það ár fæddist lítill drengur á eldhúsgólfinu í móttökumiðstöð fyrir hælisleitendur í Þýskalandi. Á þessum árum var mikill ófriður á Balkanskaganum og foreldrarnir héldu af stað út í óvissuna, móðirin ólétt og þau lásu þannig í ástand heimalandsins og landanna í kring að þar væri ekki óhætt að dvelja og því var lagt upp í óvissuför, í mikilli örvinglan í leit að friði og já, í leit að betra lífi fyrir fjölskylduna.

Líf þessa litla drengs varð ekki alslæmt þó að hann hefði alist upp á flakki milli hinna ýmsu Evrópulanda, þar sem foreldrar hans sóttu um hæli og dvöl. Fjölskyldan passaði ekki inn í neinar mannanna reglur og ramma og því barst þeim synjun á synjun ofan. Drengurinn ólst sem sagt upp í einum fimm löndum, lengi dvöldu þau í Noregi eða í rétt tæp fimm ár.

Drengurinn var um 17 ára gamall, búinn með eitt ár í framhaldsskóla í Noregi, þegar fjölskyldan var send til heimalandsins sem þá var orðið öruggt land, stríðinu var lokið en afleiðingar áralangra átaka voru t.d mikið atvinnuleysi og fátækt.

Vinir fjölskyldunnar í Noregi mótmæltu og útbjuggu stuðningssíðu á Facebook, fjallað var um mál þeirra í fjölmiðlum, en fjölskyldan mótmælti ekki. Þau sögðu að þau ættu engan rétt og þó að þetta væri erfitt og sorglegt og alls ekki það sem þau vildu eða veldu þá væri þessi ákvörðun yfirvalda í raun og veru alveg réttmæt.

Heimalandið var öruggt, þar ríkti friður þrátt fyrir mikla fátækt og gríðarlegt atvinnuleysi. Þau sögðu og það væru í raun svo margir aðrir sem þyrftu á þessu frekar að halda en þau. Þau fluttu því frá Noregi aftur til landsins sem þau höfðu flúið þegar drengurinn þeirra var ófæddur, ég geri ráð fyrir að þau hafi hreinlega verið orðin leið á rótleysinu og flakkinu.

En drengurinn var ekki sáttur og lýsir því að erfiðast af öllu hafi alltaf verið að yfirgefa vinina og skólann. Nýir vinir á nýjum stöðum, í nýju landi gerðu þennan dreng einstaklega vel færan félagslega og tilfinningalega.

Drengurinn strauk síðan frá því sem foreldrar hans kölluðu heimalandið, hann var þá um tvítugt. Hann ferðast þvert yfir Evrópu og flakkaði á milli Svíþjóðar og Noregs. Ég kynntist þessum unga manni á þeirri vegferð hans og líf mitt fléttast inn í lífssögu drengsins sem byrjaði með miklum lygum sem smám saman leystust upp þegar traustið rýmdi sannleikanum braut og fyrirgefningin lærðist og lifðist.

Þessi drengur kenndi mér djúpa og sanna auðmýkt fyrir lífinu og þakklæti því sem streymir frá honum hef ég ekki kynnst af þeirri gráðu áður.
Þessi drengur varð mér dýrmæt gjöf, þó að ég hafi lengi vel ekki viljað sjá hana og alls ekki beðið um hana,“ sagði Arna.

Feðraveldið að leysast upp

Arna segir að þeir leiðtogar sem feta í fótspor frelsarans og finna í einlægni hjartans til auðmýktar gagnvart Guði sem sínu æðra valdi, misnoti síður vald. Valdníðsla víkur alltaf fyrir samstarfi og opnu samtali margra sem treysta og trúa á samtakamátt og valddreifingu. Valdníðsla víkur alltaf fyrir samstarfi og opnu samtali margra sem treysta og trúa á samtakamátt og valddreifingu.

„Me too”-byltingin er eitt dæmi um þetta. Á siðbótarári, nú þegar 500 ár eru liðin frá því að Marteinn Lúther negldi upp mótmælin 95 á dyr Hallkirkjunnar í Wittenberg í Þýskalandi, þá rísa upp konur úr öllum stéttum og mótmæla valdníðslu í hverskonar mynd. Feðraveldið er að leysast upp um allan heim og eitthvað nýtt bíður okkar, vitum kannski ekki alveg hvað en við finnum að við erum að lifa breytingar. Yfirleitt eru breytingar gjöf sem getur verið erfitt að taka við, sum kannski vilja hana ekki, finnst hún óþörf og jafnvel sársaukafull eða sjá ekki þörfina. En gjöfin er gefin, sannleikurinn streymir fram, sögurnar, reynslan og sorgin bíður eftir því að það sé hlustað og að hlustunin færi til breytinga á orðum og atferli.

Við getum ekki annað en tekið við þessari gjöf þó að við vitum ekki nákvæmlega hvert hún leiðir okkur. Við getum a.m.k. lært það að það er ekki lífi og samfélagi til framdráttar að loka inni í skáp nokkuð af því sem tilheyrir reynsluheimi manneskjunnar. Þar vil ég sérstaklega nefna eina af grundvallarþörfum manneskjunnar og það er trúarþörfin. Trúin og trúarreynslan verður að fá að vera hluti af hinu opinbera rými. Þó að trúin sé lifuð á hinu einstaklingsbundna og persónulega sviði þá er hún einnig lifuð í samfélagi manna á milli og miðlar siðferði og gildismati,“ segir Arna í predikun sinni sem hægt er að lesa í heild hér.

Fjölskyldan sameinuð á Íslandi

Hún talaði um mátt fyrirgefningarinnar og sagði að það væri aðeins vegna trúarinnar á frelsarann Jesú Krist sem henni tókst að taka við þeirri gjöf sem drengurinn sem fæddist á eldhúsgólfinu í móttökumiðstöð flóttamanna í Þýskalandi varð henni.

„Ungi maðurinn er sonur minn í dag, tengdasonur reyndar, og faðir litlu dótturdóttur minnar. Hann fékk dvalar- og atvinnuleyfi hér á Íslandi fyrr á þessu ári og er fullur þakklætis og auðmýktar og hefur lært sitthvað um hina kristnu fyrirgefningu sem honum var áður framandi sem lifuð reynsla. Nú getum við haldið heilög friðarjól, fjölskyldan sameinuð. Það er dýrmætasta jólagjöfin í ár.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert