Villtust í Glerárdal

Björguarsveitin Súlur á Akureyri.
Björguarsveitin Súlur á Akureyri. Landsbjörg/Ástþór

Björgunarsveitarfólk var kallað út upp úr klukkan 20 í gærkvöldi til að leita að pari sem hafði villst í Glerárdal við Akureyri. Að sögn varðstjóra í lögreglunni á Akureyri hafði fólkið lagt af stað fótgangandi síðdegis og ætlað sér að ganga í skálann Lamba en villst af leið enda skyggni lélegt.

Þau höfðu samband við lögreglu rúmlega átta og kallaði lögregla strax út björgunarsveitarfólk til að leita að fólkinu. Klukkan 23:20 náði parið símasambandi við lögreglu og hafði þá fundið skálann en var kalt og þreytt. Sleðahópur björgunarsveitarinnar Súlna fór í skálann og ræddi við fólkið og ákvað það að gista þar í nótt og ganga niður til byggða í dag. 

Samkvæmt vef Ferðafélags Akureyrar er Lambi í 720 metra hæð. Lambi stendur í Glerárdal suðvestan Akureyrar, byggður 2014. Frá vegi að skálanum er stikuð gönguleið, 10-11 km. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert