Adam og Eva tóku silfrið

Adam og Eva voru í öðru sæti.
Adam og Eva voru í öðru sæti. Ljósmynd/Aðsend

Eva Karen Ólafsdóttir og Adam Breki Tryggvason náðu frábærum árangri á Opna heimsmeistaramótinu í suðuramerískum dönsum um helgina þar sem þau nældu í silfur.

Þau Adam og Eva, sem bæði eru níu ára gömul, hafa hlotið gælunafnið Team Paradise, enda vísa nöfn þeirra í þekkt par úr aldingarði nokkrum. Þau hafa einungis dansað saman í sex mánuði en hafa þó farið víða á þeim tíma og stóðu til að mynda uppi sem sigurvegarar í tveimur flokkum á Baltic Open í október.

„Þau eru bæði úr dansfjölskyldum,“ segir móðir Evu, Heiðrún Svanhvít Níelsdóttir. Fjölskylda Evu sér um rekstur dansdeildar HK en amma og afi Adams reka Dansfélagið Hvönn. Börnin keppa því undir merkjum beggja félaga og hafa bæði æft dans frá leikskólaaldri.

Um 24 pör tóku þátt í undir 10 ára flokki. Samhliða heimsmeistaramótinu í Suður-amerískum dönsum fór fram heimsmeistaramót í standard dönsum þar sem krakkarnir náðu fjórða sæti. Þá komust þau einnig í úrslit í flokkunum „Latin Fred Astaire“ í Suður-amerískum dönsum og í „Ballroom restricted“ og „Fred Astaire“ í standard dönsum.

„Við vorum með vonir um að þau gætu komist inn í úrslit, þó ekki væri nema bara í einni keppni en að komast inn í úrslit í fimm af sex, það var meira en nokkuð okkar grunaði að þau gætu gert,“ segir Heiðrún.

En þegar þau eru ekki svífandi um dansgólfið hafa Eva og Adam fæturna tryggilega á jörðinni.

„Þau eru náttúrulega níu ára pottormar og fatta alveg hvað þetta er stórt en voru svo bara glöð að fá að fara inn og leika og búa til vídeó. Það er náttúrulega bara stutt í leikinn hjá þeim.“

Hér að neðan má sjá Adam og Evu dansa djæf í úrslitum mótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert