Efla búnað sinn á norðurslóðum (Myndband)

„Þessi nýja þyrlutegund mun stórefla getu okkar til björgunar og eftirlits. Lynx-þyrlurnar hafa lengi reynst okkur vel, en þetta er allt annað tæki,“ segir Kim Jesper Jørgensen, undirhershöfðingi hjá norðurslóðasveit danska hersins, í samtali við Morgunblaðið.

Vísar hann í máli sínu til þess að danski flugherinn hefur nú tekið í notkun nýja þyrlu af gerðinni MH-60R Seahawk og á hún að leysa af hólmi eldri þyrlur, Westland Lynx. Er alls búið að leggja inn pöntun fyrir níu Seahawk þyrlum og verða í framtíðinni tvær staðsettar á eftirlitssvæði norðurslóðasveitarinnar á hafsvæðinu í kringum Færeyjar, Ísland og Grænland.

Jørgensen kom sérstaklega hingað til lands til að vera viðstaddur athöfn, sem haldin var um borð í eftirlitsskipinu Hvidbjørnen, sem er af Thetis-gerð freigátna, síðastliðinn fimmtudag, en þá tók norðurslóðasveitin sína fyrstu Seahawk-þyrlu formlega í notkun og fengu Morgunblaðsmenn að fylgjast með.

Stútfullar af nýjustu tækni

MH-60R kemur úr smiðju bandaríska flugvélaframleiðandans Sikorsky og ættu landsmenn flestir að kannast við samskonar þyrlur frá þeim tíma er varnarliðið var enn á Keflavíkurflugvelli.

Jørgensen segir nýju þyrlurnar vera með mun meiri flugdrægni bornar saman við Lynx, geta borið fleiri farþega og með fullkomnari tæknibúnað til leitar og eftirlits.

„Þær eru t.a.m. með talsvert öflugri rafeinda- og radarbúnað sem getur fylgst með stóru svæði og hitamyndavél sem fundið getur fólk úr mikilli fjarlægð, en slíkur búnaður auðveldar mjög björgun úr sjó. Þyrlurnar munu því vafalaust nýtast okkur vel,“ segir Jørgensen.

Breyta þurfti skipunum

Seahawk-þyrlur eru talsvert lengri, hærri og þyngri en Lynx og af þeim sökum þurfti að ráðast í umfangsmiklar breytingar á þeim eftirlitsskipum sem sveitin notast við.

„Við þurftum að breyta skipunum. Flugskýlin voru stækkuð og þyrludekkið styrkt því þessar vélar eru þyngri en þær gömlu. Það þurfti því að breyta skipunum talsvert til að rúma þessar þyrlur,“ segir Jørgensen og bendir á að nú geti þyrlusveit Landhelgisgæslu Íslands aukið enn frekar samstarf sitt við danska sjóherinn því þyrlur Landhelgisgæslunnar, sem eru af gerðinni Aerospatiale Super Puma, geta nú eftir breytingarnar lent á skipunum.

Aðspurður segir Jørgensen þyrlusveit Gæslunnar þegar hafa æft lendingar með áhöfninni á Hvidbjørnen og var æft á Faxaflóa fyrir um viku.

Hægt er að lesa viðtalið við Jørgensen í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

KIm Jesper-Jørgensen um borð í Hvidbjørnen.
KIm Jesper-Jørgensen um borð í Hvidbjørnen. mbl.is/Eggert
MH-60R kemur úr smiðju bandaríska flugvélaframleiðandans Sikorsky og hafa Danir …
MH-60R kemur úr smiðju bandaríska flugvélaframleiðandans Sikorsky og hafa Danir pantað níu slíkar vélar. mbl.is/Eggert
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert