Gul ábending fyrir fjallvegi

Víða um land er hálka eða hálkublettir á vegum.
Víða um land er hálka eða hálkublettir á vegum. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Vegagerðin hefur sent út gula ábendingu fyrir fjallvegi á vestanverðu landinu í dag. Búast má við slyddukrapa eða snjókomu á  Hellisheiði, Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði, Fróðárheiði, Bröttubrekku, Holtavörðuheiði og Kleifaheiði fram eftir degi. Undir kvöld styttir hins vegar upp með vestanátt og útgeislun og því gæti myndast ísing á blautum vegum en um miðnætti má svo búast við éljalofti vestan til.

Það er vetrarfærð nánast um allt land, hálka eða hálkublettir en snjóþekja á fáeinum vegum. Spáð er hlýnandi veðri um tíma og sums staðar er byrjað að hlána. Því má búast við versnandi hálku á þeim vegum þar sem hálka er fyrir, að segir í tilkynningu frá Vegagerðinni. Þá er Öxi er ófær en gert er ráð fyrir að hún opnist í dag.

Vegir á hálendinu eru að mestu ófærir enda engin þjónusta á þeim á þessum árstíma. Allur akstur er bannaður á vegi 864 fyrir austan Jökulsá á Fjöllum vegna skemmda í veginum.

Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert