Hannes klippir stiklu fyrir fótboltamynd

Hannes Þór Halldórsson kann ýmislegt.
Hannes Þór Halldórsson kann ýmislegt. mbl.is/Golli

Kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Sagafilm fékk Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörð í knattspyrnu, til að klippa nýja kynningarstiklu fyrir kvikmyndina Víti í Vestmannaeyjum sem byggir á samnefndri bók eftir Gunnar Helgason.

Hannes, sem væntanlega um standa í markinu hjá  íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi næsta sumar, var fastráðinn leikstjóri í fullu starfi hjá Sagafilm árin 2012 og 2013, áður en hann hóf atvinnuferil í fótbolta. Hann spilar í dag fyrir Randers í Danmörku en kann greinilega enn til verka í kvikmyndabransanum.

Víti í Vestmannaeyjum verður frumsýnd í Sambíóunum þann 9. mars næstkomandi. Sagan er þroskasaga Jóns sem fer á sitt fyrsta knattspyrnumót í Vestmannaeyjum. Þar þarf Jón að takast á við sjálfan sig og aðra, bæði innan vallar sem utan. Jóhann Ævar Grímsson, Otto Geir Borg og Gunnar Helgason skrifa handrit kvikmyndarinnar og leikstjórn er í höndum af Braga Þórs Hinrikssonar. Samhliða framleiðslu kvikmyndarinnar verða þróaðir og framleiddir sex sjónvarpsþættir sem einnig eru byggðir á bókinni og hefur RÚV tryggt sér sýningarréttinn á þeim.

Level K dreifir hvoru tveggja á heimsvísu og hefst kynning erlendis snemma á næsta ári.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert