Vilja leyfa kannabis í lækningaskyni

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. Píratar lögðu í gær fram þingsályktunartillögu …
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. Píratar lögðu í gær fram þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að heilbrigðisráðherra verði falið að undirbúa og leggja fram lagafrumvarp sem heimili notkun og framleiðslu lyfjahamps hér á landi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingmenn Pírata lögðu í gær fram þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að heilbrigðisráðherra verði falið að undirbúa og leggja fram lagafrumvarp sem heimili notkun og framleiðslu lyfjahamps hér á landi.

Lyfjahampur er heiti yfir það kannabisefni sem notað er í læknisfræðilegum tilgangi. Flutningsmenn þingsályktunartillögunnar eru allir þingmenn Pírata, þau Halldóra Mogensen, Björn Leví Gunnarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Í ályktuninni kemur fram að notkun hampjurtarinnar sem lyfs eigi sér langa sögu auk þess sem hampjurtin hefur margvíslegt annað notagildi. 

Leggja þau til að byggt verði á reynslu þeirra landa sem þegar hafa heimilað notkun lyfjahamps og að litið verði til allra þeirra þátta sem hafa þurfi í huga að við setningu laga og reglna um notkun og ræktun lyfjahamps, m.a. innflutnings og sölu á fræjum, ræktun plantna, framleiðslu og vinnslu lyfja úr plöntunum, ávísunar og dreifingar á tilbúnum lyfjahampi.

Benda þingmennirnir í tillögu sinni á að rannsóknirnar hafi sýnt fram á að lyfjahampur hafi raunverulegt notagildi, m.a. í meðferð gegn krabbameini, taugasjúkdómum og öðrum alvarlegum sjúkdómum.

Meðal þeirra ríkja sem nú hafa heimilað notkun lyfjahamps eru Austurríki, Belgía, Kanada, Grikkland, Tékkland, Síle, Úrúgvæ, Kólumbía, Finnland, Þýskaland, Ísrael, Ítalía, Holland, Portúgal, Spánn og Bretland auk hluta Ástralíu og Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert