Fundað í flugvirkjadeilunni fram eftir

Samningamenn fá sér kaffi í húsakynnum ríkissáttasemjara 11. desember, þá …
Samningamenn fá sér kaffi í húsakynnum ríkissáttasemjara 11. desember, þá á sínum tólfta fundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samninganefndir Flugvirkjafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins munu að öllum líkindum sitja við fram á kvöld. Þetta segir Gunnar R. Jónsson, formaður samninganefndar flugvirkja.

„Það er bara verið að funda og í raun og veru ekkert nýtt,“ segir Gunnar. „Menn eru bara að ræða saman.“

Verkfall flugvirkja Icelandair hefst klukkan sex í fyrrmálið að óbreyttu en það mun raska ferðum 10 þúsund farþega á degi hverjum, samkvæmt SA. Deiluaðilar sitja nú sinn 17. fund hjá ríkissáttasemjara en sá hefur staðið frá klukkan 13:00. 

Gunnar segir best að hafa sem fæst orð um hvort lausn sé í sjónmáli, hann geti ekki spáð fyrir um slíkt.

„Við verðum alveg fram eftir í kvöld grunar mig,“ segir hann. „Ég veit ekki hvað lengi, en það verður fundað fram eftir.“

Þegar samningar nást í húsakynnum ríkissáttasemjara eru ávallt bakaðar vöfflur til hátíðarbrigða. Gunnar segir hins vegar engan ilm að finna enn.

„Nei, vöfflubakarinn er alla vega ekki kominn í hús.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert