„Feginn að þú ert ekki forstjóri Landspítalans“

Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði ekki við því að búast …
Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði ekki við því að búast að forstjórar ríkisstofnanna lýstu yfir einhvern tímann yfir ánægju með fjárlög. mbl.is/Kristinn Magnússon

100 milljarðar í innviðauppbyggingu sem Sjálfstæðisflokkurinn hét fyrir síðustu kosningar munu skila sér. Þetta sagði Páll Magnússon í þættinum Silfrinu á RÚV í morgun.

Fjármálafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar var meðal umræðuefna þingmannanna Ágústs Ólafs Ágústssonar Samfylkingu, Bjarkeyjar Olsen Framsóknarflokki, Halldóru Mogensen Pírata og Páls, ekki hvað síst varðandi framlög til heilbrigðiskerfisins.

Lýsti Halldóra yfir óánægju með að ekki væri komið betur til móts við Landspítalann í fjárlögunum og sagði þær 600 milljónir sem Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans hefur sagt vanta til að spítalinn geti haldið óbreyttum rekstri, ekki stóra fjárhæð í hinu stóra samhengi.

Páll sagðist hins vegar telja að Landspítalinn fengi of mikið. „Ég er ekki sáttur við hvað heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni fá lítið,“ sagði Páll er Ágúst Ólafur spurði hann út í skoðun sína á lágum framlögum til heilbrigðisstofnanna Suðurnesja og Suðurlands.

„Það var einn flokkur sem lofaði 100 milljarðum í innviðauppbyggingu, það var Sjálfstæðisflokkurinn,“ sagði Ágúst Ólafur því næst.

„Já, það kemur líka,“ sagði Páll.

Ekki gilt framlag í pólitíska umræðu

Ágúst Ólafur sagðist einnig vilja vita af hverju sjálfstæðismenn tortryggi forstjóra Landspítalans stöðugt,  þrátt fyrir að spítalinn sé mjög vel rekinn. Svaraði Páll: „Það er enginn að segja að hann sé að bulla. Það bara kemur ekki fram forstjóri ríkisstofnunar og segist vera ánægður með fjárlög.“

„Hann hefur gert kraftaverk við þessi kröppu kjör,“ svaraði Ágúst Ólafur þá og sagði Landspítalann ekki vera botnlausa hít.

„Það er bara ekki hægt að taka það sem gilt og óskaplega verðmætt innlag í pólitíska umræðu þegar stjórnendur opinberrar stofnunnar lýsa yfir ónægju,“ svaraði Páll og minnti á að hann hefði eitt sinn verið yfirmaður RÚV og sem slíkur hefði sér ekki dottið í hug að lýsa yfir ánægju með fjárlög.

„Þetta er ótrúlegt viðhorf,“ sagði Ágúst Ólafur og Halldóra samsinnti orðum hans. „Ég er feginn að þú sért ekki forstjóri Landspítalans“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert