Kvörtunum rignir yfir Icelandair

Mikill mannfjöldi er á Keflavíkurflugvelli en verkfall flugvirkja Icelandair hefur …
Mikill mannfjöldi er á Keflavíkurflugvelli en verkfall flugvirkja Icelandair hefur haft tafir í för með sér auk þess sem flugi 16 flugvéla hefur verið aflýst. Ljósmynd/Víkurfréttir

Starfsmenn Icelandair standa nú í ströngu við að taka á móti og vinna úr þeirri holskeflu kvartana og fyrirspurna sem dynur á fyrirtækinu vegna yfirstandandi verkfalls flugvirkja.

Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, að leitað hefði verið lausna fyrir áhyggjufulla farþega sem hefðu haft samband á síðustu dögum en að Íslendingar væru meðvitaðaðri um verkfallið en erlendir farþegar.

Icelandair stendur í ströngu við að svara kvörtunum á Twitter …
Icelandair stendur í ströngu við að svara kvörtunum á Twitter og Facebook.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar var greint frá því að símakerfi flugfélagsins hefði legið niðri um stund vegna álagsins. Á samfélagsmiðlum má einnig finna fjöldan allan af reiðilegum kvörtunum, auk þess sem margir leita upplýsinga, en yfirgnæfandi meirihluti skilaboðanna kemur frá erlendum ferðamönnum.

Twitter-notandinn @cxs5700 kvartar þannig yfir því að flugi hans til Munchen hafi verið aflýst og það eftir þriggja klukkustunda bið. Flugið er eitt af 16 sem aflýst hefur verið en um ræðir kyrrsetningu átta véla sem fljúga áttu til Evrópu og aftur heim.

Matthew Congleton birtir mynd úr brottfararsalnum á Facebook. Sakar hann Icelandair um risavaxið klúður sem sjálfur Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, yrði stoltur af.

Twitter-notandinn @me_ram segist hafa reynt ýmsar leiðir til að ná sambandi við Icelandair eftir að flugi hans til Zurich var aflýst, án árangurs.

Hann er ekki sá eini.

@Kelly_Jackson88 kvartar yfir því að hafa þurft að dvelja langtímum saman í ískaldri rútu á flugbrautinni.

Í öðru tísti segist hún aðeins hafa verið vöruð við mögulegum seinkunum en að nú séu skilaboðin sú að Icelandair sé sama þó allir sitji fastir á flugvellinum.

Twitter notandinn @ezexhiel segir töskurnar sínar ekki hafa ratað um borð í vélina auk þess sem hann hafi misst af tengifluginu sínu vegna seinkanna. Nú sé hann fastur á Keflavíkurflugvelli. Segir hann Icelandair vera versta flugfélag sem hann hafi notast við hvað varðar samskipti.

@KajalShah891 finnst upplýsingagjöf Icelandair skítleg.

Inn á milli berast Icelandair þó hughreystandi skilaboð, hrós og þakkir. 





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert