Rólegt andrúmsloft í Leifsstöð þrátt fyrir verkfall

Reynt hefur verið að koma til móts við áhyggjufulla farþega …
Reynt hefur verið að koma til móts við áhyggjufulla farþega síðustu daga, sem gæti skýrt að ekki sé meiri örtröð eða ósætti á vellinum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Engin örtröð ríkir í Leifsstöð, þrátt fyrir miklar raskanir á öllum leiðum Icelandair sökum verkfalls flugvirkja.

„Andrúmsloftið er bara ósköp rólegt og allt gengið, skilst mér, bara vel,” segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia. Hann segir aukamannskap hafa verið kallaðan út til starfa á flugvellinum vegna verkfallsins, til að mynda við öryggisleit, og að eins megi búast við að verslanir vallarins verði betur mannaðar en ella vegna aukins álags.

„Maður veit náttúrulega aldrei,“ segir Guðjón. „Það gæti orðið einhver örtröð síðar meir og þá erum við bara við öllu búin.“

Skaðinn mestur hjá farþegum

Nafni hans, Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir fyrirtækið hafa reynt að gera ráðstafanir síðustu daga svo koma mætti til móts við farþega.

„Þeim sem hafa haft áhyggjur af þessu hafa staðið til boða önnur flug og að færa sig til án endurgjalds þannig að það hefur náðst að fækka í þessum flugum í dag,“ segir Guðjón en bætir við að vélarnar séu engu að síður vel setnar.

„Íslendingar eru að minnsta kosti mjög meðvitaðir um það sem hugsanlega gæti gerst,“ heldur hann áfram. „Mesti skaðinn af svona verkfalli er hjá farþegunum sem eiga auðvitað brýn erindi í tengslum við jólahátíðina.“

Erlendir ferðamenn eru í yfirgnæfandi meirihluta meðal þeirra sem tjá sig á stöðuuppfærslu flugfélagsins á Facebook um verkfallið. Eins beinast fjölmörg tíst til Icelandair á Twitter, nánast undantekningarlaust frá erlendum farþegum. Sumir kvarta en aðrir leita upplýsinga, ýmist um úrbætur eða fjárbætur. Enn aðrir hella einfaldlega úr skálum reiði sinnar.

Frekari raskana að vænta

Fundi flugvirkja og Samtaka Atvinnulífsins var slitið um þrjú leytið í nótt. Ekki hefur enn verið boðað til næsta fundar.

Þegar þetta er skrifað hefur átta ferðum á vegum Icelandair til og frá landinu verð aflýst og öllum morgunflugum var frestað. Guðjón segir nokkrar þeirra véla þó þegar vera farnar og að verið sé að undirbúa aðrar fyrir brottför. Hinsvegar sé ljóst að einnig verði röskun á flugi seinni partinn og að varla sé hægt annað en að gera ráð fyrir að aflýsa þurfi fleiri ferðum.

„Í sinni einföldustu mynd er þetta þannig að engin flugvél fer í loftið nema hún sé í fullkomnu lagi,“ segir Guðjón og bætir því við að án flugvirkja breytist vinnuferlið örlítið.

„Ástæða þess að þessum flugum var aflýst í morgun var einfaldlega sú að við skoðun sáu menn að það þurfti aðkomu flugvirkja, þá er þeim lagt og flugi aflýst.“

Taka einn dag í einu

Guðjón bendir á að heimasíða Icelandair sé uppfærð á u.þþb klukkutíma fresti með nýjustu upplýsingum um stöðu mála.

Hann segir Icelandair taka einn dag í einu hvað viðbrögð við verkfallinu varðar. Nú sé verið að skoða hvernig bregðast þarf við síðdegis. Mikið álag sé á starfsfólki og að rétt eins og hjá Isavia hafi aukastarfskraftur verið kallaður til eins og hægt er.

„Við höfum reynt að beina fólki inn á síðuna okkar þar sem eru svör við algengum spurningum og upplýsingar um hvernig megi ná í okkur. Það er oft fljótlegra að nota samskiptamiðlana en að hringja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert