Kólnar með útsynningi, skúrum eða éljum

Spáð er kólnandi veðri á aðfangadag.
Spáð er kólnandi veðri á aðfangadag. Veðurstofa Íslands

Búast má við talsverðri og sums staðar mikilli rigningu á sunnanverðu landinu seinni partinn og í kvöld. Hlýnað hefur hratt á landinu í nótt og því víða hláka í dag og hætt við vatnavöxtum í ám og lækjum. Þetta kemur fram í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Hlýtt loft leikur um landið og rignir víða talsvert þegar líður á daginn, jafn vel úrhelli undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og Öræfum í kvöld. Hlýindin standa þó stutt yfir, því á morgun kólnar talsvert með útsynningi, skúrum eða éljum. Tölvu­spár fyrir vikuna gera ráð fyrir að hlýni um tíma á föstudag, en kólni síðan yfir jólahelgina,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Það er snjóþekja eða hálka á Suðurlandi og flughálka á nokkrum köflum. Í öðrum landshlutum er verið að kanna færð, segir í færslu á vef Vegagerðarinnar frá því á sjöunda tímanum.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðlægur vindur, 8-15 m/s og sums staðar lítilsháttar væta, en þurrviðri NA-til. Fer að rigna kringum hádegi, talsverð og jafn vel mikil rigning S-til í kvöld, einnig dálítil rigning NA-til. Hiti 3 til 11 stig, hlýjast á A-landi.
Suðvestan 10-18 og víða skúrir eða él á morgun, hvassast við sjávarsíðuna, en hægari og léttir til fyrir austan. Hiti yfirleitt 0 til 5 stig.

Á þriðjudag:
Suðvestan 10-15 m/s og víða él, en yfirleitt bjartviðri eystra. Hiti yfirleitt 0 til 4 stig. 

Á miðvikudag:
Suðvestan 13-20 m/s, hvassast syðst og éljagangur, en léttskýjað A-lands. Hiti kringum frostmark. 

Á fimmtudag:
Stíf vestanátt, dálítil él og áfram svalt í veðri. 

Á föstudag:
Suðlæg átt með rigningu og hlýindum. 

Á laugardag (Þorláksmessa):
Útlit fyrir suðvestanátt með snjómuggu eða éljum, en bjart með köflum fyrir austan. Víða vægt frost. 

Á sunnudag (aðfangadagur jóla):
Líklega norðlæg átt, él á víð og dreif og kólnandi veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert