Tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í síðustu viku karlmann í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun. Maðurinn var dæmdur til að greiða fórnarlambinu 1,5 milljóna króna í miskabætur. Auk þess þarf hann að greiða málsvarnarlaun verjanda, 900 þúsund krónur, og réttargæslulaun upp á 614 þúsund krónur.

Fram kemur í dómnum að maðurinn var ákærður fyrir að hafa að morgni sunnudagsins 23. október 2016 haft samræði og önnur kynferðismök við konuna gegn hennar vilja, með því að stinga fingrum í leggöng hennar og hafa við hana samræði, þar sem hún lá sofandi í sófa og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar, en hún var gestkomandi á heimili ákærða.

Brotaþoli greindi frá því að hún hefði sofnað heima hjá ákærða eftir partý og vaknað við að ákærði var með höndina inni á henni. „Ég var í kjól .. .en ég vaknaði bara við það ... að hann er með puttana inn á mér og ég hugsa hvað er að gerast ... sagði við hann; „Hvað ertu að gera?“, en þá bara stakk hann puttanum inn í mig og hélt mér svona niðri með hendinni, þar sem ég lá á bakinu,“ segir í dómnum.

Brotaþoli hafi frosið eða hálf lamast og hugsað með sér hvað væri að gerast en í framhaldinu hafi ákærði nauðgað henni.

Maðurinn var dæmdur í tveggja ára fangelsi en einn dómaranna þriggja skilaði sératkvæði. Hann taldi að sýkna ætti manninn vegna þess að ásetningur ákærða hefði ekki verið sannaður svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa. Því ætti að sýkna manninn, bæði af kröfum ákæruvaldsins og einnig miskabótakröfu brotaþola.

Dómurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert