Ákvörðun dómsmálaráðherra könnuð

Helga Vala Helgadóttir.
Helga Vala Helgadóttir. Ljósmynd/Samfylkingin

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur verið boðuð til fundar á morgun þar sem landsréttarmálið verður til umræðu. Eins og greint var frá fyrr í dag fá dómararnir Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson samtals 1,4 milljónir króna í miskabætur vegna skipunar dómara við landsrétt.

Ástráður og Jó­hann­es voru á meðal 33 um­sækj­enda um embætti dóm­ara við lands­rétt og meðal þeirra 15 sem dóm­nefnd sam­kvæmt lög­um um dóm­stóla hafði talið meðal hæf­ustu til að gegna því embætti.

Sigríður Andersen.
Sigríður Andersen. mbl.is/Eggert

Þegar Sig­ríður Á. And­er­sen dóms­málaráðherra gerði til­lögu til Alþing­is um þá 15 um­sækj­end­ur sem skipa skyldi dóm­ara vék ráðherra frá niður­stöðum nefnd­ar­inn­ar varðandi fjóra um­sækj­end­ur og voru Ástráður og Jó­hann­es ekki á meðal þeirra sem lagt var til að yrðu skipaðir.

Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar, staðfesti fundinn í kvöldfréttum RÚV. Á vefsíðu Alþingis stendur að meðal efnis á fundinum á morgun verði tillaga um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kanni ákvarðanir dómsmálaráðherra og verklag við vinnslu tillögu til Alþingis um skipan dómara í landsrétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert