Kæra Alþingi fyrir brot á jafnréttislögum

Frá þingsetningu í síðustu viku.
Frá þingsetningu í síðustu viku. Eggert Jóhannesson

Kvenréttindafélag Íslands hefur kært Alþingi til kærunefndar jafnréttismála vegna brots á jafnréttislögum við skipan í fjárlaganefnd á yfirstandandi þingi. Í síðustu viku tóku sæti í nefndinni 8 karlar og 1 kona.

Í 15. gr.jafnréttislaga er kveðið skýrt á um að í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% af hvoru kyni.

Í tilkynningu frá Kvenréttindafélaginu segir að skipun Alþingis í fjárlaganefnd fari „með grófum hætti gegn lagaákvæðinu, þar sem hlutföllin eru 89% karlar og 11% kona.“

„Kvenréttindafélag Íslands hefur margoft skorað á og hvatt Alþingi og stjórnvöld að gæta að kynjahlutföllum við skipan ríkisstjórnar og við skipan í nefndir og ráð, nánar tiltekið fjórum sinnum á síðastliðnu ári, síðast 14. Nóvember síðastliðinn,“ segir jafnframt í tilkynningu frá félaginu.

Fulltrúar Kvenréttindafélagsins meta það svo að Alþingi hafi sýnt í verki að jafnréttislög eru hreinlega virt að vettugi við skipan í nefndir og því taldi félagið ljóst að leita þyrfti annarra leiða en að senda út ályktanir og áskoranir.

„Kvenréttindafélag Íslands leggur fram kæru til kærunefndar jafnréttismála vegna skipunar í þá nefnd sem kynjahlutföllin eru verst, fjárlaganefnd, og telur félagið að þetta sé í fyrsta sinn sem það er gert.“

Þá telur Kvenréttindafélagið að það sé með engu ásættanlegt að löggjafinn fylgi ekki lögum. „Við sættum okkur ekki lengur við það að konur eigi ekki sæti við borðið. Kynjajafnrétti og jöfn þátttaka kvenna og karla í ákvarðanatöku er grundvöllur lýðræðisins, sem og hagsældar og velferðar okkar allra.“

Hér má lesa kæruna í heild sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert