Vill rannsókn á ákvörðunum og verklagi dómsmálaráðherra

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, óskar eftir því að stjórnskipunar- …
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, óskar eftir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd haldi áfram rannsókn á ákvörðunum og verklagi dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í dag hefur Sigríður Á. Andersen verið í Hæstarétti fundin brotleg við lög um skipan dómaranna, svo ég óska eftir að því að nefndin komi saman til að klára ákvörðun um rannsókn á skipan dómsmálaráðherra í Landsrétt,“ segir í beiðni frá Jóni Þóri Ólafssyni, þingmanni Pírata, til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Í beiðni þingmannsins segir að Píratar hafi í vor kallað eftir rannsókn á ákvörðunum og verklagi Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við skipun dómara í Landsrétt. Þá hafi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd frestað þeirri rannsókn sökum þess hún gæti truflað dómsmál gegn dómsmálaráðherra.

Nú sé því dómsmáli lokið og óskar Jón Þór því eftir að nefndin komi saman „til að klára ákvörðun um rannsókn á skipan dómsmálaráðherra í Landsrétt.“

Vísar hann í Lög um þingsköp Alþingis er að lúta að hlutverki stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem segir: „Nefndin skal einnig hafa frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. Komi beiðni um slíka athugun frá a.m.k. fjórðungi nefndarmanna skal hún fara fram. Um athugun sína getur nefndin gefið þinginu skýrslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert