Braust inn á byggingarsvæði vopnaður hníf

Maðurinn braust inn á byggingarsvæði í nótt. Mynd úr safni.
Maðurinn braust inn á byggingarsvæði í nótt. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlmaður var handtekinn rétt rúmlega átta í morgun vegna gruns um innbrot og þjófnað á nýbyggingarsvæði í Vesturbænum. Var maðurinn í talsvert annarlegu ástandi og lét öllum illum látum þegar lögreglan hafði afskipti af honum. Samkvæmt dagbók lögreglunnar var maðurinn með hníf meðferðis við handtökuna. Hann var vistaður í fangaklefa þangað til hægt verður að ræða við hann.

Á sjötta tímanum í nótt var svo tilkynnt um karlmann í annarlegu ástandi inni í sólarhringsverslun í austurbænum. Var honum vísað af vettvangi enda ekki frekari kröfur á hendur honum.

Þá óskaði karlmaður eftir aðstoð lögreglu vegna líkamsárásar sem hann sagðist hafa orðið fyrir við sólarhringsverslun í Kópavogi á sjöunda tímanum. Maðurinn reyndist hins vegar ölvaður og framburður hans á reiki. Var honum því leiðbeint að hafa samband við lögreglu þegar væri runnið af honum.

Þá var kvenmaður handtekinn á níunda tímanum vegna gruns um ölvunar- og fíkniefnaakstur í Árbæ. Var hún flutt á lögreglustöð til blóðsýnatöku og að því loknu var hún frjáls ferða sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert