Kjararáð setji ný launaviðmið

mbl.is

„Við þurfum að ákveða fyrir lok febrúar hvað við gerum vegna þessa forsendubrests. Það er forsendubrestur og hefur verið frá febrúar í ár,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, um stöðuna á vinnumarkaði.

Tilefnið eru nýir úrskurðir kjararáðs um launahækkanir presta, prófasta, vígslubiskupa og biskupa.

Fram kom í Morgunblaðinu í gær að grunnlaun presta hækka um allt að 26% og heildarlaun biskups um 22%.

Gylfi segir forsendur núverandi samninga hafa verið brostnar þegar í febrúar í ár vegna meiri launahækkana annarra hópa. Kjararáð hafi síðan hækkað laun embættismanna „miklu meira“ en almennt var gert.

„Það sama hlýtur að gerast í viðræðum sem eru í gangi við háskólamenn hjá ríkinu. Nánustu samstarfsmenn forstöðumanna ríkisstofnana eru háskólamenn hjá ríkinu.“

Þrjú skilyrði til riftunar

Forsenduákvæði kjarasamninga ASÍ og SA eru þríþætt. Aðilar geta sagt upp kjarasamningum fyrir lok febrúar hvert ár sé þremur skilyrðum ekki fullnægt. Það fyrsta varðar efndir ákvæða í yfirlýsingu ríkisstjórnar frá 28. maí 2015 um húsnæðismál. Það næsta segir að launahækkanir sem kveðið er á um í samningnum skuli vera stefnumarkandi fyrir aðra samningagerð á vinnumarkaði. Það þriðja segir að kaupmáttur skuli aukast. Með forsendubresti vísar Gylfi fyrst og fremst til þess að annað ákvæðið sé brostið. Samningar ASÍ og SA séu ekki lengur stefnumarkandi.

Samkvæmt kjarasamningum ASÍ og SA eiga laun á almennum markaði að hækka um 3% 1. maí 2018.

Allt að 5,5% meira en aðrir

Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica, bar að beiðni Morgunblaðsins saman þróun almennrar launavísitölu og vísitölu launa þeirra sem heyra undir kjararáð. Samanburðurinn nær til tímabilsins frá janúar 2016 til loka þess árs. Reiknað er út frá vísitölum sem kjararáð birti á vefnum í gær.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert

Samkvæmt áætlun Analytica hefur vísitala kjararáðs nú hækkað 3,4% meira en almenn launavísitala frá ársbyrjun 2016. Það bil aukist í 5,5% m.t.t. afturvirkra hækkana kjararáðs frá og með 1. janúar í ár. Er þá miðað við þá reikniforsendu að úrskurður kjararáðs haldi til tveggja ára. Við þessa lauslegu útreikninga er miðað við að prestar, prófastar, vígslubiskup og biskup séu um fjórðungur þeirra sem heyra undir kjararáð. Það er að segja að kirkjunnar menn séu alls um 125 af þeim 400 sem heyra undir ráðið. Fyrri talan er frá Prestafélagi Íslands en sú síðari er fengin af vef stjórnarráðsins.

„Leiðrétting“ vegur þungt

Tekið er með í reikninginn að grunnlaun presta, alls 113 einstaklinga, hækkuðu um 10,5%-26%. Laun biskups hækkuðu um 22% en upplýsingar um launahækkun prófasta og vígslubiskupa voru ekki tiltækar þegar spurt var um málið.

Yngvi reiknaði með jafnri dreifingu launa þeirra sem eru undir kjararáði. Laun presta kunna að vega minna en hér er áætlað. Við það minnkar bilið milli launaþróunar. Á móti kemur að afturvirkni hækkana, svonefnd leiðrétting, vegur þungt.

„Þetta getur hæglega orðið atriði sem skiptir máli fyrir kjaramálin á almenna markaðnum á nýju ári,“ segir Yngvi um samanburðinn.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, baðst undan viðtölum vegna úrskurðar kjararáðs. Hún sendi hins vegar frá sér yfirlýsingu. Þar sagði að það væri ekki í hennar verkahring að tjá sig um úrskurði kjararáðs um launakjör presta. „Eðlilegt er þó að benda á að um er að ræða kerfisbreytingar og launaleiðréttingar eftir tólf ára kyrrstöðu að undanskilinni kjaraskerðingu hjá prestastéttinni á árinu 2009,“ sagði biskup m.a. í yfirlýsingu.

Flugvirkjar muni „eflaust“ horfa til úrskurða kjararáðs

Óskar Einarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, segir úrskurði kjararáðs setja „kjarasamninga á almennum markaði í upplausn“. „Það er ákvæði í kjarasamningum hjá stærri aðilum um að endurskoða megi samninga í febrúar ef það verður forsendubrestur,“ segir Óskar.

Flugvirkjafélag Íslands kynnti félagsmönnum sínum nýjan kjarasamning í gærkvöldi. Félagið frestaði verkfalli um fjórar vikur með samningi við Icelandair.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert