Rammaskipulag um tvöfalt byggingarmagn Skeifunnar samþykkt

Yfirlitsmynd af nýja Skeifusvæðinu miðað við rammaskipulagið sem samþykkt var …
Yfirlitsmynd af nýja Skeifusvæðinu miðað við rammaskipulagið sem samþykkt var í borgarráði í gær. Horft er til norðurs. Teikning/Kanon arkitektar

Nýtt rammaskipulag fyrir Skeifusvæðið var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur í gær, en þar er gert ráð fyrir heildar endurskipulagningu svæðisins þar sem stór hluti húsanna á svæðinu verður endurbyggður. Þá er gert ráð fyrir viðbyggingum við fjölda húsa. Samtals er gert ráð fyrir að meira en tvöfalda núverandi byggingarmagn á svæðinu, þar af að reisa 750 íbúðir, auka framleiðslu- eða þjónusturými um 60% og byggja bílastæðahús. Þá er mikil áhersla lögð á almannasvæði í skipulaginu.

Úr 119 þúsund fm í 270 þúsund fm

Samkvæmt rammaskipulaginu er gert ráð fyrir 750 íbúðum sem samtals verða um 67.500 fermetrar. Það þýðir að meðalíbúð verður um 90 fermetrar. Í dag er svo gott sem engin íbúðabyggð á svæðinu, en samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er gert ráð fyrir 500 íbúðum. Þá var fyrr á þessu ári tilkynnt að horft væri til 750 íbúða við vinnu á skipulagi svæðisins.

Heildarbyggingarmagn í Skeifunni í dag er um 119 þúsund fermetrar, en heimild er fyrir 141 þúsund fermetra. Svo gott sem allt það rými er framleiðslu- eða þjónusturými. Samkvæmt nýja rammaskipulaginu er gert ráð fyrir að það verði um 190 þúsund fermetrar. Til viðbótar bætist 13.300 fermetra bílastæðahús á miðju svæðinu. Verður heildar byggingarmagn á Skeifusvæðinu samkvæmt þessu 270 þúsund fermetrar, sem er 126% meira en nú er til staðar og um 90% meira en heimilað byggingarmagn samkvæmt deiliskipulagi er.

Svæðið verður endurbyggt að stórum hluta

Samkvæmt rammaskipulaginu er gert ráð fyrir að stór hluti svæðisins verði endurbyggður eða að nýjum viðbyggingum verði bætt við núverandi hús. Þetta á meðal annars við um stóran hluta miðsvæðis Skeifunnar, nýjar húsaraðir meðfram Miklubraut og Suðurlandsbraut og norðausturhluta svæðisins. 

Rauði liturinn táknar ný hús, fjólublái liturinn táknar viðbyggingar við …
Rauði liturinn táknar ný hús, fjólublái liturinn táknar viðbyggingar við núverandi hús og blái liturinn hús sem munu áfram standa samkvæmt nýju rammaskipulagi. Eins og sjá má er horft til þess að endurbyggja svæðið að stórum hluta. Teikning/Kanon arkitektar

Færri bílastæði og ekki krafa um að bílastæði fylgi íbúð

Byggðin getur að jafnaði orðið fjögurra til sex hæða við borgargötur samkvæmt skipulaginu og þá hæst við megingönguásinn og samgöngutorg sem verður næst Glæsibæ.

Í dag er bílastæðafjöldi Skeifunnar 2.745 ofanjarðar auk 80 stæða í bílskýlum. Flest stæðanna eru almenningsstæði, en einnig eru 108 einkastæði. Samkvæmt rammaskipulaginu er gert ráð fyrir að bílastæðum muni fækka. Krafa verður um lægra hlutfall bílastæða og á bílastæði ekki sjálfkrafa að fylgja með íbúðum sem eru nálægt við stoppistöð fyrirhugaðrar borgarlínu. Er frekar hugsað til þess að íbúar geti keypt sér aðgang að stæði. „Það er, kostnaður við gerð bílastæða skal ekki vera innifalinn í íbúðarverði heldur bætist við ef óskað er eftir stæði í bílastæðahús,“ eins og segir í greinargerð með rammaskipulaginu.

Kröfur um almannarými, gróður og bætt umhverfi

Borgin mun hafa talsvert með heildarútlit svæðisins að segja samkvæmt skipulaginu. „Framhliðum lóða sem snúa að borgarrými hverfisins verði stýrt hnitmiðað með skipulags- og byggingarskilmálum, á meðan aðrir hlutar innan skipulagsins t.d. uppbygging á baklóðum verður frjálsari.“

Yfirlitsmynd skipulagsreita Skeifusvæðisins samkvæmt rammaskipulagi.
Yfirlitsmynd skipulagsreita Skeifusvæðisins samkvæmt rammaskipulagi. Teikning/Kanon arkitektar

Þá þurfa lóðaeigendur að verða við ýmsum aukakröfum eigi að bæta byggingarmagn á reitum þeirra. „Auknum byggingarheimildum lóða munu fylgja kvaðir um að lagfæra og bæta umhverfið, gönguleiðir á lóðum og ásýnd mannvirkja gagnvart borgarrýminu, ásamt kröfu um lægra hlutfall bílastæða og ákveðið hlutfall gróðurs á lóð, t.d. í þakgörðum.“

Einnig er lögð fram tillaga um að skilyrt verði að við uppbyggingu lóða sé um 15-25% hluti hennar notaður undir almenningsrými, garð eða torg.

Áhersla á bílaumferð, gangandi og hjólandi vegfarendur

Tekið er fram að samgöngur við svæðið séu lykilatriði og að aðkoma bíla eigi að vera auðveld og er meðal annars horft til endurbóta á nærliggjandi götum eins og Grensásvegi. Aftur á móti verður lokað fyrir inn- og útkeyrslu af svæðinu á norðaustur horni svæðisins, þar sem nú er veitingastaðurinn Metró.

Fyrst verður þó horft til að bæta aðstöðu gangandi og hjólandi vegfarenda og verður stígakerfi Skeifunnar styrkt og tengingum við nærliggjandi hverfi bætt.

Teikning/Kanon arkitektar

Úr stærri iðnaðareiningum í minni þjónustueiningar

Skeifan var upphaflega byggð sem svæði fyrir léttan iðnað og umfangsmeiri starfsemi. Í rammaskipulaginu segir að þetta hafi mikið breyst á undanförnum árum, en að enn sé nokkuð um umfangsmeiri framleiðslu. „Í nýrri Skeifu verður byggðin smám saman þétt með áherslu á blöndun íbúða og atvinnu. Lögð er áhersla á minni þjónustueiningar sem henta borgargötum og fjölbreyttar íbúðir sem stuðla að félagslegri fjölbreytni.“ Þá er gert ráð fyrir að í nýjum þjónusturýmum á jarðhæð verði almennt 4 metra lofthæð og er það hugsað til að gera starfsemi sýnilegri.

Horft er til þess að reisa leikskóla á svæði sunnan Goðheimablokka samkvæmt skipulaginu, en svona mikilli uppbyggingu fylgir innviðauppbygging sem þessi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert