Gatnamótin tilbúin næsta vor

Svona munu gatnamót Geirsgötu/Lækjargötu/Kalkofnsvegar líta út þegar framkvæmdum lýkur á …
Svona munu gatnamót Geirsgötu/Lækjargötu/Kalkofnsvegar líta út þegar framkvæmdum lýkur á næsta ári. Hér er horft frá Arnarhóli.

Framkvæmdir við gatnamót Geirsgötu/Lækjargötu/Kalkofnsvegar hafa tafist umtalsvert og mun þeim ekki ljúka fyrr en næsta vor.

Framkvæmdir við gatnamótin hófust í lok mars síðastliðins og var götunum þá lokað að hluta. Til stóð að hleypa umferð á gatnamótin í ágúst en það dróst fram í nóvember.

Í samráði við þau fyrirtæki sem vinna að uppbyggingu á svæðinu voru gerðar breytingar á áætlunum til að skapa þeim svigrúm við uppbygginguna, samkvæmt upplýsingum Jóns Halldórs Jónassonar, upplýsingafulltrúa hjá Reykjavíkurborg.

Gatnamótin áttu að vera fullfrágengin núna í desember en frost og kuldi komu í veg fyrir það. Malbikun og frágangi svæðisins verður frestað til næsta vors. Gert er ráð fyrir að frágangi á þessu svæði verði að fullu lokið í apríl 2018. Gatnamótin voru færð nokkra metra í vesturátt. Útbúin voru svokölluð T-gatnamót í stað sveigðrar Geirsgötu eins og áður var. 30 kílómetra hámarkshraði verður á þessum götum. Eftir framkvæmdirnar verður Geirsgatan hornrétt á Lækjargötu/Kalkofnsveg.

Lóðaþjónustan ehf. átti lægsta tilboð í verkið að upphæð 347,2 milljónir króna.

Ófrágengið við nýbyggingar

Svæðið milli Arnarhóls og nýbygginga á Hafnartorgi er einnig ófrágengið. Eftir er að ganga frá aksturssvæðinu austan við Hafnartorgið. Hluti af svæðinu er með bráðabirgðamalbiki og hluti þess er ennþá athafnasvæði byggingarverktaka. Gert er ráð fyrir að fara í þessa vinnu í sumar og á henni að ljúka haustið 2018.

Á Hafnartorgi er verið að byggja sjö hús með verslunum og íbúðum, alls 23.350 fermetrar.

Þá er eftir að ganga frá gangstétt norðan við hin nýju hús, þ.e. meðfram Geirsgötu, frá Kolaportinu að Arnarhóli. Gert er ráð fyrir að vinna við frágang fari fram í vor og sumar í samvinnu við byggingaraðila.

Loks er ráðgert að hægt verði að fara í frágang á hjólastíg norðan Geirsgötu með vorinu. Frágangur á gangstétt verður unninn í samvinnu við byggingaraðila norðan Geirsgötu. Þær framkvæmdir eru á áætlun árið 2019.

Miklar framkvæmdir

Norðan Geirsgötu, þ.e. á lóðinni næst Hörpu, munu rísa 250 herbergja hótel og fimm byggingar með 90 íbúðum og verslunum. Þá er einnig áformað að nýjar höfuðstöðvar Landsbankans rísi á lóðinni.

Gríðarmiklar framkvæmdir hafa staðið yfir við Gömlu höfnina í Reykjavík undanfarin misseri, líklega þær mestu í sögu höfuðborgarinnar. Þeim er hvergi nærri lokið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert