Líkur á mikilli svifryksmengun - heilbrigt fólk gæti fundið fyrir áhrifum

Sé tekið mið af veðurspá fyrir áramót má ætla að svifryksmengun geti orðið svipuð og hún var á fyrsta degi ársins 2017, en þá mældist mengun mikil. Samkvæmt spánni verður frost og stilla um áramótin líkt og í fyrra.

„Við höfum áhyggjur af því að við þessar aðstæður eru miklar líkur á að svifryksmengun fari langt yfir heilsuverndarmörk,“ segir Svava Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Heilbrigt fólk gæti fundið fyrir áhrifum

Hún segir að við ákveðin skilyrði geti heilbrigt fólk fundið fyrir ertandi áhrifum af svifryksmengun. „Það eru helst þeir sem eru veikir fyrir og viðkvæmir sem verða fyrir beinum áhrifum af því að vera úti við þessar aðstæður. Síðan er ekki bara að falla til ryk, heldur er gífurlegt magn af eiturefnum í flugeldunum sem falla til jarðar. Við sem erum hraust þolum þessa mengun í svona stuttan tíma, en þegar þetta verður svona mikið gæti heilbrigt fólk jafnvel fundið fyrir ertingu og óþægindum í öndunarfærum,“ segir hún.

Svifryk í Reykjavík.
Svifryk í Reykjavík. mbl.is/Kristinn

Spurð hvernig mengunin komi við þá sem veikir eru fyrir og hvort fólk hafi verið í mikilli hættu vegna mengunar, kveðst Svava ekki vita til þess að upplýsingar hafi verið teknar saman um innlagnir á spítala eða lyfjaúttektir um áramót vegna þessa. „Það má samt leiða líkum að því að þeir sem hafi verið úti um áramót noti lyf til að láta sér líða betur,“ segir hún.

Á morgun mun Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gefa út nánari upplýsingar og leiðbeiningar fyrir þá sem eru með astma, ofnæmi eða undirliggjandi lungnasjúkdóma. Verður mengun um áramót svo skráð ítarlega sem venja er.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert