Mengun af flugeldum á við náttúruhamfarir

Svifryksmengun af völdum flugelda gæti orðið mikil yfir borginni um …
Svifryksmengun af völdum flugelda gæti orðið mikil yfir borginni um áramótin. mbl.is/Ómar Óskarsson

Svifryk frá flugeldum getur jafnast á við styrk mengunar vegna náttúruhamfara, t.d. þegar eldfjallaaska berst til Reykjavíkur. Þetta kemur fram í nýrri grein þeirra Hrundar Ólafar Andradóttur, prófessors við umhverfis- og byggingarverkfræðideild HÍ, og Þrastar Þorsteinssonar, prófessors í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ, á Vísindavef háskólans.

Í greininni segir ennfremur að í vetrarstillum við áramót safnist ryk saman í andrúmslofti þannig sé magn rykagna orðið hundraðfalt hærra en æskilegt er. Þessar aðstæður hafi t.a.m. verið uppi um síðustu áramót. 

Magn innfluttra flugelda hefur fjórfaldast á síðustu 20 árum, en sólarhringsmeðaltal svifryks yfir áramótin 2016/2017 var þreföld heilsuverndarmörk. Veðurspár benda til þess að svipuð veðurskilyrði verði uppi nú um áramótin 2017/2018.

Loftmengun getur valdið sjúkdómum og ótímabærum dauðsföllum, en einkenni koma oft ekki fram fyrr en á síðari hluta ævi fólks sem annars er heilbrigt. Umhverfsisstofnun telur að allt að 80 ótímabær dauðsföll verði á hverju ári vegna svifryksmengunar.

Eitraðir þungmálmar í flugeldunum

Í greininni segir að Umhverfisstofnun hafi reiknað út að heildarlosun þungmálma á borð við blý, kopar, sink og króm, hafi samsvarað allt að 10-30% af losun á ársgrundvelli hér á landi árið 2015. Málmar þessir brotna ekki niður í náttúrunni og verða því eftir í umhverfinu. Þeir geta því sest í jarðveg og flætt með ofanvatni í vatn nálægt uppsprettu, oftar en ekki í íbúðarhverfum og almenningsgörðum. Þeir geta líka borist langar vegalengdir með vindum.

Málmar sem þessir eru margir eitraðir mönnum í litlu magni og benda þau Hrund Ólöf og Þröstur á að blý hafi t.a.m. verið bannað „vegna ótvíræðra áhrifa á heilsu fólks“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert