Ólafur Ragnar fái 7 milljónir

Ólafur Ragnar á Hringborði norðurslóða fyrr á árinu.
Ólafur Ragnar á Hringborði norðurslóða fyrr á árinu. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Meirihluti fjárlaganefndar hefur lagt til að sjö milljónir króna verði á næstu tveimur árum veittar til utanríkisþjónustunnar til að aðstoða Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta, við ýmis verkefni sem enn eru á hans borði. 

Gert er ráð fyrir að launakostnaður verði um fimm og hálf milljón króna en ferðakostnaður ein og hálf milljón.

Í nefndarálitinu segir að viðtekin venja sé í nágrannalöndum að bjóða fyrrverandi þjóðarleiðtogum slíka þjónustu. Þá hafi Vigdísi Finnbogadóttur verið tryggð slík þjónusta er hún lét af embætti.

Ólafur Ragnar stýrir samtökunum Hringborði norðurslóða (e. Arctic Circle Organization) en hann var einn stofnenda þeirra árið 2013. Samtökin eru stærsti umræðuvettvangur um málefni norðurslóða og þær áskoranir sem steðja að vegna loftslagsbreytinga. Árlega halda samtökin ráðstefnu í Hörpu og hafa Ban Ki-moon, þáverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, og Nicole Sturgeon, fyrsti ráðherra Skota, meðal annarra sótt þingið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert