Sóttu hart að Katrínu

Hart var sótt að forsætisráðherra í morgun.
Hart var sótt að forsætisráðherra í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hart var sótt að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma og hiti í umræðunum á köflum.

Þau Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, beindu öll að forsætisráðherra fyrirspurnum um barna- og/eða vaxtabætur, en undir liðnum fundarstjórn forseta kvaddi fjöldi þingmanna sér einnig til hljóðs um málið.

Stjórnarandstöðuflokkarnir lögðu í gær fram sameiginlegar tillögur um hækkun barna- og vaxtabóta. Leggur stjórnarnandstaðan til að skerðingarmörk bótanna miðist við lágmarkslaun, 300 þúsund krónur á mánuði, en mörkin í dag eru 225 þúsund krónur á mánuði. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi meirihlutans er gert ráð fyrir að mörkin hækki upp í 242 þúsund krónur á mánuði.

Leggur stjórnarandstaðan áherslu á að barnabótum verði breytt þannig þær byrji ekki að skerðast undir lágmarkslaunum.

Samfylkingin ekkert lagt til um tekjuöflun

Oddný spurði ráðherra hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að hún samþykkti breytingartillögu þingminnihlutans og ef fyrirstaða væri, þá hver hún væri. „Mikil skerðing barnabóta við lágar tekjur stuðlar að fátækt meðal vinnandi fólks,“ sagði Oddný.

Katrín svaraði því til að barnabætur hækkuðu milli ára og engin kerfisbreyting yrði gerð á fyrirkomulagi þeirra. „Ég tel það ekki vönduð vinnubrögð að fjalla ekki um málin heildstætt á þeim stutta tíma sem við höfum til að afgreiða fjárlög hér,“ sagði Katrín. Mikilvægara væri að setjast yfir samspil skatta- og bótakerfa á kjörtímabilinu, m.a. svo húsnæðisstuðningur nýttist sem best ungu og tekjulágu fólki. 

Katrín sagði Samfylkinguna engar tillögur hafa lagt fram um tekjuöflun, heldur ræddi aðeins um útgjaldahliðina.

Taldi Oddný Katrínu ekki hafa svarað spurningu sinni og greip í sífellu fram í fyrir henni og sagði henni henni að svara spurningunni. Fleiri þingmenn kölluðu einnig að ræðustólnum þannig að forseti þingsins þurfti að áminna þá um reglur þingsins.

Þá gagnrýndi Oddný þá fyrirætlan félags- og jafnréttismálaráðherra að ræða ætti barnabætur við samningsborð komandi kjaraviðræðna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert