Ókeypis tannlækningar fyrir börn: „Þetta eru tímamót“

mbl.is/Eggert

Frá og með áramótum verða ákveðin tímamót í tannlækningum á Íslandi þegar tannlækningar verða gjaldfrjálsar fyrir öll börn yngri en 18 ára. Síðasti áfanginn í samningi Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélagsins, um tannlækningar barna, tekur þá gildi og felur í sér gjaldfrjálsar tannlækningar fyrir yngsta hópinn, börn yngri en þriggja ára.

Samkvæmt samningnum eru tannlækningar barna greiddar að fullu af SÍ fyrir utan 2.500 kr. árlegt komugjald. Gjaldfrjálsar tannlækningar ná yfir hér um bil allar tannlækningar fyrir utan tannréttingar, þ.e. eftirlit, forvarnir, flúormeðferð, skorufyllur, tannfyllingar, rótfyllingar og annað sem telst til nauðsynlegra tannlækninga.

Hólmfríður Guðmundsdóttir tannlæknir hjá Embætti landlæknis.
Hólmfríður Guðmundsdóttir tannlæknir hjá Embætti landlæknis. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir hjá Embætti landlæknis, segir það ánægjulegt að allir aldurshópar heyri nú undir samninginn um gjaldfrjálsar tannlækningar. „Þetta eru tímamót og ég held að það sé óhætt að segja að tannlæknisþjónusta fyrir yngsta aldurshópinn hafi aldrei verið eins vel dekkuð á Íslandi,“ segir Hólmfríður.

Hún segir mikla áherslu lagða á að kynna þjónustuna til foreldra á komandi ári, og þá sérstaklega foreldra af erlendum uppruna. „Við viljum upplýsa foreldra með annað tungumál en íslenskuna um þessi réttindi. Það eru margir sem átta sig ekki á því að öll tannlæknaþjónustan er gjaldfrjáls,“ segir Hólmfríður.

Hólmfríður ráðleggur foreldrum að panta tíma hjá tannlæknum þegar börnin eru tveggja til þriggja ára. Tannlæknarnir skrá börnin í sjúkratryggingakerfið en það er foreldranna að panta tíma hjá tannlækni.

Spurð hvort samningurinn um gjaldfrjálsar tannlækningar sé farinn að skila sér í bættri tannheilsu frá þeim tíma þegar fyrsti áfangi samningsins tók gildi árið 2013 segir Hólmfríður að auðvitað standi vonir til þess, að til lengri tíma komi gjaldfrjálsar tannlækningar barna til með að skila bættri tannheilsu barna og fullorðinna. „En við höfum enn ekki neinar tölulegar upplýsingar,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert