Vill frekar banna eitruð innihaldsefni

Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins.
Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frekar ætti að banna almenna notkun flugelda um áramót á þeim forsendum að þeim fylgi mengun sem innihaldi skaðleg eiturefni. Því mætti banna slík eiturefni í flugeldum.

Þetta segir Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag. Vísar hann þar til ummæla sem Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðiefsins og kennari, lét falla í fyrradag.

Frétt mbl.is: Sævar Helgi vill banna flugelda

Sævar lagði til að öll almenn notkun á flugeldum yrði bönnuð. Umhverfissjónarmið ættu að vega þyngra en gamlar hefðir og nefndi í því sambandi auk umhverfissjónarmiða reyk- og rykmengun, sóðaskap og hávaðamengun sem fylgdu almennri notkun flugelda.

Sævar sagði ennfremur í samtali við Ríkisútvarpið að til yrði manngerð þoka um áramótin full af eiturefnum. Efnin færu síðan út í lífríkið, drykkjarvatn og annað og brotnuðu ekki svo auðveldlega niður. Þessi efni gætu þannig að lokum haft hættuleg áhrif á fólk.

Frosti bendir á að á meðal þeirra efna sem væri að finna í flugeldum væri barium, arsenik, blý og kvikasilfur. En fremur en að ganga svo langt að banna almenna notkun flugelda mætti þess í stað einfaldlega banna flugelda sem innihéldu umrædd eiturefni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert