Mói gamli og sessunautarnir

Sigurður Sumaliðason og Þórhallur Sigurðsson, Laddi, brugðu á leik á …
Sigurður Sumaliðason og Þórhallur Sigurðsson, Laddi, brugðu á leik á Ruby Tuesday í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Sumarliðason matreiðslumeistari leynir á sér eins og fleiri. Hann getur til dæmis líkt ótrúlega vel eftir Ladda, Þórhalli Sigurðssyni skemmtikrafti, bæði í háttum og söng. Sérstaklega tekst honum vel upp í hlutverki Mófreðs Betúsalemssonar, Móa gamla, í laginu „Austurstræti“, sem hann hefur sungið og leikið fyrir fjölda manns á skemmtunum og öðrum mannfögnuðum á undanförnum árum.

„Siggi hefur alltaf verið mjög skemmtilegur og fyndinn og hefði átt að verða skemmtikraftur,“ segir Laddi. Félagarnir voru skólafélagar og sessunautar í Flensborg í Hafnarfirði í gamla daga, léku sér saman og lærðu hvor inn á annan. „Við vorum báðir mjög feimnir og þorðum ekkert að gera nema vera með fíflalæti og gera kennarann óðan,“ heldur Laddi áfram. „En svo skildi leiðir, ég fór að læra matreiðslu og hann að vinna í Kassagerðinni en við höfum alla tíð vitað hvor af öðrum og hist af og til,“ botnar Siggi.

Félagarnir taka Austurstræti með Móa á þorrablóti í Lúxemborg.
Félagarnir taka Austurstræti með Móa á þorrablóti í Lúxemborg.

Tónlistin blundaði í þeim báðum, Laddi tileinkaði sér fljótlega Skráms-röddina og Siggi segist snemma hafa byrjað að glamra á gítar. „Þetta hefur verið svona meira af vilja en mætti, smá „fokk“. Ég kann í raun ekki neitt en hef spilað undir þegar ég hef verið að raula „Austurstrætið“ á skemmtunum og í vina- og kunningjahópum.“

Saman á sviði

Laddi hefur auðvitað verið í uppáhaldi hjá Sigga og hann segist strax sérstaklega hafa hrifist af Móa gamla syngja „Austurstræti“. „Það varð til þess að ég fór að æfa mig í að taka lagið, það spurðist út og ég var beðinn að fara með það á skemmtunum þegar ég vann hjá Loftleiðum og síðar Flugleiðum. Síðan hefur lagið fylgt mér víða þar sem ég fer með skemmtilegu fólki.“

Laddi og Siggi, sem er í Karlakór Reykjavíkur, hafa einu sinni sungið „Austurstræti“ saman. Fyrir rúmum áratug var Sigurður beðinn að sjá um matinn á um 250 manna Íslendingaskemmtun í Lúxemborg og Laddi sá um skemmtiatriðin.

„Við ræddum saman kvöldið áður en sem ég var að hafa til matinn fyrir þorrablótið kom Laddi inn í eldhús og sagðist hafa heyrt að ég væri miklu betri en hann sem Mói að syngja „Austurstræti“. Ég sagði að það væri kjaftæði en hann hlustaði ekki á mig og sagði mér að vera tilbúinn, hann myndi kalla á mig upp á svið. Hann stóð við það og við sungum og lékum „Austurstræti“ saman. Síðan höfum við skemmt hvor í sínu lagi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert