Epalhommi er orð ársins 2017

Epalhommi er orð ársins 2017.
Epalhommi er orð ársins 2017. Ljósmynd/Brandenburg

Epalhommi hefur verið valið orð ársins í kosningu sem RÚV, Stofnun Árna Magnússonar og Mímir, félag stúdenta í íslensku og almennum málvísindum við Háskóla Íslands stóðu að. 

Landsmenn fengu að velja orð ársins í netkosningu á rúv.is og greint var frá valinu í dag þegar menningarviðurkenningar RÚV voru veittar í Útvarpshúsinu.

Valið stóð á milli tíu orða sem vöktu athygli á einn eða annan hátt á liðnu ári. Orðin eru: Leyndarhyggja, þyrilsnælda, falsfrétt, uppreist, örplast, hægvarp, epalhommi, líkamsvirðing, áreitni og innviðauppbygging. 

Í yfirferð yfir poppkúltúr ársins fór Anna Marsibil Clausen, blaðamaður mbl.is, yfir tilurð orðsins Epalhommi: 

Frétt mbl.is: Epalhommar, vondar píur og gosdósin góða

Viðtal Sindra Sindra­son­ar við Töru Mar­gréti Vil­hjálms­dótt­ur, formann sam­taka um lík­ams­virðingu, tók óvænta stefnu þegar rætt var um for­dóma. „Veistu hvað ég er í mörg­um minni­hluta­hóp­um?“ sagði Sindri þegar Tara sagði hann mæla úr for­rétt­inda­stöðu. „Ég er hommi, ég á litað barn, það er ætt­leitt, ég er fyrsti sam­kyn­hneigði maður­inn til að ætt­leiða á Íslandi, ég er gift­ur út­lend­ingi – eða hálf­um út­lend­ingi,“ hélt Sindri áfram, „þannig að við skul­um ekki fara þangað.“

Orðaskipt­in vöktu mikla at­hygli á sam­fé­lags­miðlum en á meðal þeirra sem tjáðu sig var Hild­ur nokk­ur Lilliendahl sem skrifaði að henni væri skapi næst að kveikja í hár­inu á sér „fyr­ir aum­ingja kúgaða hvíta ófatlaða ep­al­homm­ann með alla sjón­varpsþætt­ina“. Orð Hild­ar voru grip­in á lofti af aug­lýs­inga­stof­unni Brand­en­burg sem smellti þekkt­um ís­lensk­um homm­um í opnu-aug­lýs­ingu fyr­ir Epal í Frétta­tím­an­um. Sindri sagði síðar í viðtali við Stund­ina að hann teldi sig aldrei hafa upp­lifað for­dóma á eig­in skinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert