„Ég get alveg röflað við útlendinga“

Jón Gnarr er spenntur fyrir því að fara með erlenda …
Jón Gnarr er spenntur fyrir því að fara með erlenda ferðamenn í ferðir um Reykjavík. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Að fara í ferðir um borgina með ferðamenn finnst mér mjög spennandi, en ég hef því miður enn ekki orðið þeirrar hamingju aðnjótandi ennþá,“ segir Jón Gnarr, rithöfundur, leikari og fyrrverandi borgarstjóri. Ferðaþjónustufyrirtækið Iceland unplugged hefur hafið sölu á þriggja til fjögurra klukkustunda skoðunarferðum um borgina með Jóni, sem nefnast Frá pönki til pólitíkur og eru stílaðar eru inn á erlenda ferðamenn. Hver ferð kostar 4.800 dollara, eða tæplega 500 þúsund krónur og eru hámark fimm manns í hóp. Hver og einn þarf því að reiða fram um 100 þúsund krón­ur til að fræðast og ferðast með Jóni um Reykja­vík.

Jón segir starfsmann Iceland unplugged hafa haft samband við sig að bragði og borið upp hugmyndina. Þótti honum hún spennandi og óvenjuleg og sló því til. Hann telur það líklega ekki í boði víða að fyrrverandi borgarstjóri fari með ferðamenn í skoðunar- og fræðsluferðir um borgir.

„Þetta er bara hugmynd sem kom upp hjá aðilum frá þessu ferðaþjónustufyrirtæki og mér finnst þetta mjög sniðugt. Ég hef enn þó ekki farið neina ferð,“ ítrekar Jón, en í samtali við mbl.is í vikunni sagði Aron Karlsson, hjá Iceland unplugged að Jón væri einmitt í slíkum túr þegar hann ræddi við blaðamann.

Ferðirnar verða persónulegar

Jón veit ekki hvenær stendur til að fyrsta ferðin verði farin. „Ég held að þeir hafi verið að setja þetta í birtingu um jólin. Ég veit ekki hvort þeir hafa fengið einhverjar fyrirspurnir.“ Hann er hins vegar tilbúinn hvenær sem er og ætlar rétt að vona að ferðirnar rjúki út eins og heitar lummur. „Ég hef frá mörgu að segja og ég get alveg röflað við útlendinga. Ég fer létt með það.“

Spurður hvort hann sé búinn að undirbúa sig og ákveða hvernig hann ætlar að byggja ferðirnar upp segist hann að miklu leyti ætla að láta það ráðast af hópnum hverju sinni hverjar áherslurnar verða.

„Ég er með ýmsar hugmyndir en þetta mótast mikið af því hvað fólk vill vita um. Hvar áhugi þess liggur. Þetta eru í rauninni tvær sögur. Önnur er mín persónulega æskusaga sem kemur fyrir í bókunum mínum, sem tengist þessu svæði. Hin er Besti flokkurinn og það ævintýri allt saman. Ef fólk hefur lesið bækurnar mínar eitthvað þá fer ég kannski meira í það, en ef það er komið bara af pólitískum áhuga eða Reykjavíkuráhuga þá mun ég tækla það öðruvísi,“ segir Jón, en hann gerir ráð fyrir að ferðirnar verði frekar persónulegar. Þá gerir hann sér grein fyrir því að það er mikil pressa á honum að koma efninu til skila með skemmtilegum og áhugaverðum hætti, enda ferðirnar ekki ódýrar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert