Jón Karl að hugsa málið

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Þetta er enn þá tal en við höfum svona aðeins verið að hugsa þetta,“ segir Jón Karl Ólafsson í samtali við mbl.is en nafn hans hefur verið nefnt í tengslum við fyrirhugað leiðtogakjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna sveitarstjórnarkosninganna í vor.

„Það er ekki alveg komið að þessu en ég er að hugsa málið,“ segir Jón Karl sem starfar sem framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia en starfaði áður meðal annars sem forstjóri Icelandair. Spurður hvort niðurstaða komi um helgina segist hann eiga von á því.

Frétt mbl.is: Unnur Brá fer ekki fram í borginni

„Það er ekkert langt í miðvikdaginn, þetta er að skella á,“ segir hann. En ítrekar að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um það hvort hann gefi kost á sér. Fleiri hafa verið nefndir til sögunnar í þessu sambandi og sumir þegar sagt framboð ekki á dagskrá.

Þannig greindi Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og forseti Alþingis, frá því í dag að hún ætlaði ekki að taka slaginn. Áður hafði Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gert slíkt hið sama fyrir helgi.

Frétt mbl.is: Leiðtogakjör fer fram í janúar

Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, var einnig nefnd á sínum tíma sem mögulegur frambjóðandi en hún aftók með öllu um áramótin að hún væri á leið í framboð. Sama er að segja um Pál Magnússon, þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem gefur ekki kost á sér.

Fleiri hafa verið nefndir og þar á meðal Eyþór Arnalds, framkvæmdastjóri og fyrrverandi oddviti sjálfstæðismanna í Árborg, og Borgar Þór Einarsson, hæstaréttarlögmaður og aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. 

Tvö hafa lýst yfir framboði í leiðtogakjörinu. Borgarfulltrúarnir Áslaug Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert