Sílóin standa enn

Síló Sementsverksmiðjunnar eftir fyrstu tilraun til niðurrifs rétt fyrir áramót.
Síló Sementsverksmiðjunnar eftir fyrstu tilraun til niðurrifs rétt fyrir áramót. Ljósmynd/Kolbrún Ingvarsdóttir, Skessuhorn

Gerð var önnur tilraun til að sprengja síló Sementsverksmiðjunnar á Akranesi í dag og jafna þau við jörðu en ljóst er að þá þriðju þarf til því sílóin standa enn. „Það er seigt í þessum sílóum eins og Skagamönnum,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi. Hann segir að við sprenginguna í dag hafi aðeins náðst að halla sílóunum um 1-2 gráður til viðbótar.

Sementsverksmiðjan var byggð á árunum 1955-1958 og sílóin því reist á því tímabili eða fyrir um sextíu árum. 

Fyrri niðurrifsaðgerðir fóru fram 29. desember en þær báru ekki árangur. Í kjölfarið var svæðið girt af vegna hættu á að sílóin myndu hrynja. Það gerðist ekki.

Í tilkynningu frá Akranesbæ vegna aðgerðanna nú sagði að vanmat hafi leitt til þess að sprengihleðsla dugði ekki til að fella geymana í fyrstu atrennu. Og önnur atrenna heppnaðist ekki heldur.

Sævar Freyr segir að eftir helgi verði næstu skref varðandi niðurrifið ákveðin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert