Vandinn bundinn við fámennan hóp lækna

Íslenskir læknar ávísa ávanabindandi lyfjum í ríkari mæli en kollegar …
Íslenskir læknar ávísa ávanabindandi lyfjum í ríkari mæli en kollegar á Norðurlöndunum. Einhver hluti er misnotaður. mbl.is/Golli

Íslendingar nota meira af sumum tegundum ávanabindandi lyfja en flestar aðrar þjóðir. Þá fengu tæp 19,4% íbúa á Íslandi ávísað ópíóíðum á seinasta ári, en einungis um 7,8% íbúa í Danmörku, 7,7% íbúa í Svíþjóð og 10,7% íbúa í Noregi. Þetta kemur fram í frétt á vef embættis landlæknis.

Þar segir að almennt séu íslenskir læknar á varðbergi gagnvart misnotkun og flestir ávísi ávanabindandi lyfjum í litlum mæli. Vandinn sé því aðeins bundinn við tiltölulega fámennan hóp lækna.

Orsakir mikillar notkunar ávanabindandi lyfja hérlendis eru reifaðar í umfjöllun embættisins. Þar segir að orsakirnar gætu tengst þeirri fólksfjölgun sem hefur orðið á Íslandi undanfarin ár og því að meðalaldur sé að hækka, sem kalli á meiri notkun lyfja.

„Einnig hefur átt sér talsverð umræða um takmörkuð úrræði í meðferð þeirra sem glíma við geðræn vandmál eða langvarandi verki,“ segir í fréttinni.

Ólögleg sala veldur áhyggjum

Í umfjöllun embættisins segir að sú staðreynd að ákveðið hlutfall ávísaðra ávanabindandi lyfja rati í ólöglega sölu valdi áhyggjum og skapi aukinn vanda hjá fólki sem á við fíkn að stríða.

„Fáar þjóðir búa við sams konar ástand þar sem lögleg lyf eru misnotuð jafnmikið af fólki með alvarlegan fíknivanda eins og þekkist á Íslandi,“ segir í fréttinni, en ekki eru gefnar upplýsingar um hversu hátt hlutfall ávísaðra lyfja er talið að rati í ólöglega sölu.

Ávísanir á oxýkódon aukast hér á landi á milli áranna 2016 og 2017 og er það sérstakt áhyggjuefni að mati embættisins, því alltaf er hætta á að einhver hluti þess sem er ávísað fari í ólöglega sölu.

Alls fengu 2.843 einstaklingar lyfinu ávísuðu á síðasta ári, sem er aukning um 11,7% frá árinu 2016.

„Það gildir um oxýkódon eins og mörg önnur ávanabindandi lyf að allt of mörg dæmi eru um einstaklinga sem fá lyfin í of langan tíma þar sem viðbótarvandi þeirra er orðinn þolmyndun og ávanabinding,“ segir í umfjölluninni.

Helstu breytingar í ávísunum ávanabindandi lyfja á milli áranna 2016 …
Helstu breytingar í ávísunum ávanabindandi lyfja á milli áranna 2016 og 2017. Tafla/Embætti landlæknis
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert