Sakar Ragnar um rakalaus ósannindi

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hvað varðar fullyrðingar Ragnars Þórs um að ég standi í leynilegum viðræðum án umboðs við stjórnvöld og atvinnurekendur um að hafa af aðildarfélögum ASÍ samningsréttinn þá vísa ég þeim fullyrðingum alfarið til föðurhúsanna sem rakalausum ósannindum.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi Gylfa Arnbjörnssonar, forseta Alþýðusambands Íslands, til stjórnar og trúnaðarráðs VR vegna umræðu á vettvangi stjórnarinnar um forsendur fyrir aðild að Landssambandi íslenskra verslunarmanna og ASÍ og ummæla Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, í fjölmiðlum í tengslum við hana. Svarar Gylfi þar gagnrýni Ragnars Þórs sem hafi meðal annars sagt Gylfa standa í slíkum leynilegum viðræðum.

„Ég tel það grafalvarlegt mál þegar formaður í einu stærsta aðildarfélaginu fer fram með slíkan málflutning til þess að reyna að sannfæra félagsmenn um að yfirgefa þau heildarsamtök sem félagið á aðild að. Það er ekkert að því að taka umræðu um þátttöku VR og annarra félaga í samstarfi innan raða ASÍ, en það ætlast allir til þess að sú umræða sé bæði málefnaleg og byggi á staðreyndum en ekki rakalausum og ósönnum fullyrðingum.“

Gagnrýni fremur en tillögur að lausnum

Ragnar Þór hefur einnig að sögn Gylfa gagnrýnt háar og hækkandi greiðslur VR til ASÍ. Gylfi segir rétt að greiðslurnar hafi hækkað en breið samstaða hafi verið um það í bæði miðstjórn ASÍ og á þingi þess. Hækkunin væri vegna lækkaðra framlaga árið 2008 til þess að aðildarfélög gætu mætt fyrirsjáanlegri aukinni þjónustu og aðstoð við félagsmenn í kjölfar bankahrunsins. Í annan stað vegna ákvörðunar um að ASÍ tæki að sér fleiri verkefni en áður.

Gylfi gagnrýnir einnig ummæli Ragnars Þórs um áhrifaleysi VR innan ASÍ. Bendir Gylfi á að þrír af 15 aðalmönnum í miðstjórn ASÍ komi frá VR auk þess sem formanni félagsins hafi verið boðið að sitja fundi miðstjórnar með málfrelsi og tillögurétt. Ragnar Þór ætti sæti í samninganefnd ASÍ með fullum réttindum. Þá kæmi Gylfi sjálfur úr VR sem og annar varaforseti sambandsins. Fulltrúar VR sitji enn fremur í starfs- og málefnanefndum ASÍ.

„Það eru því fjölmörg tækifæri og aðstæður fyrir VR og fulltrúa félagsins til þess að hafa áhrif á vettvangi ASÍ og þau tækifæri hafa verið nýtt á undanförnum áratugum og fulltrúar verslunarmanna verið mjög virkir í starfi ASÍ og víða lagt sig fram um að finna nýjar leiðir og lausnir í baráttumálum okkar. Af þessum sökum á ég erfitt með að skilja þessa fullyrðingu Ragnars Þórs um áhrifaleysi innan ASÍ. Ég hef hins vegar tekið eftir því að það fer meira fyrir gagnrýni hans á störf mín og ASÍ heldur en beinum tillögum um lausnir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert