Segja mismunað eftir hjúskaparstöðu

ASÍ segir að í nýja kerfinu hafi hámarksgreiðslur hækkað meira …
ASÍ segir að í nýja kerfinu hafi hámarksgreiðslur hækkað meira hjá þeim sem búa einir en þeim sem búa með öðrum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþýðusamband Ísland segir að breyting á almannatryggingakerfinu sem tók gildi í janúar í fyrra sé í andstöðu við þá kerfisbreytingu sem samtökin hafi stutt á sínum tíma og að núverandi þróun mismuni hópum eftir því hvort um einstaklinga eða sambúðarfólk sé að ræða.

Í tilkynningu frá sambandinu segir að þeir lífeyrisþegar sem búa með öðrum hafi ekki fengið hækkanir til samræmis við þá sem búa einir. „Fram til ársins 2016 voru hámarksgreiðslur til ellilífeyrisþega sem bjuggu með öðrum u.þ.b. 86% af greiðslum til þeirra sem bjuggu einir en þetta hlutfall fór niður í 81% árið 2017 og 80% árið 2018. Það má því segja að verið sé að innleiða nýjar makatengingar í kerfið og munurinn gæti aukist enn frekar á næstu árum,“ segir í tilkynningunni.

Vísað er til laga um almannatryggingakerfið sem unnið var og samþykkt haustið 2016 og tók gildi í janúar 2017. Segir ASÍ að stjórnvöld hafi þar lofað að bregðast við kröfu um að hámarksgreiðslur almannatrygginga yrðu sambærilegar lágmarkslaunum. Það þýddi að hámarksgreiðslur almannatrygginga áttu að verða 280.000 kr. á mánuði árið 2017 og 300.000 kr. árið 2018.

Til að standa við þetta loforð hafi greiðslur fyrst og fremst hækkað til þeirra sem búa einir. „Í nýja kerfinu eru tveir bótaflokkar fyrir ellilífeyrisþega. Ellilífeyrir, sem allir í kerfinu fá, og heimilisuppbót sem þeir sem búa einir eiga rétt á. Ellilífeyririnn skerðist um 45% af tekjum en heimilisuppbótin um 56,9%. Heimilisuppbótin var hækkuð hlutfallslega mun meira en ellilífeyririnn sem veldur því að hlutfallið milli hópanna hefur raskast og þeir sem búa með öðrum hafa setið eftir,“ segir ASÍ.

Þetta hafi leitt til þess að á tímabilinu 2016-2018 hafi hámarksgreiðslur hækkað um 22% hjá þeim sem búa einir, en um 13% hjá þeim sem búa með öðrum. „Ef sömu hlutföll hefðu verið látin halda sér milli hópanna tveggja, eins og upphaflega var gert ráð fyrir, væru hámarksgreiðslur ellilífeyris tæplega 20.000 kr. hærri í dag eða 258.500 kr. á mánuði í stað 239.500 kr.,“ segir að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert