„Hafið á það inni að við tökum slaginn“

„Þetta er svo mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga að við megum …
„Þetta er svo mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga að við megum ekki láta hjá líða að spyrna við fótum áður en það verður allt of seint.“ Þetta segir Guðfinnur Sigurvinsson um ört vaxandi plastmengun í hafi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum á ögurstundu. Það er tími til að bregðast við gríðarlega mikilli plastmengun í sjó núna en ekki eftir nokkur ár. Sú hugsun að það verði meira af plasti í sjónum en fiskum árið 2050 er óásættanleg,“ segir Guðfinnur Sigurvinsson um niðurstöðu meistararitgerðar sinnar í MPA-námi í opinberri stjórnsýslu sem nefnist „Plastmengun í hafi: Hvað er til ráða?“

Markmið ritgerðarinnar var að kanna hvað íslensk stjórnvöld geta gert til að draga hér og nú úr plastmengun hafsins og hvernig þau geta virkjað aðra til samstarfs um verkefnið. Guðfinnur segir að stjórnvöld verði að axla ábyrgð og þau geti nýtt sér ýmsar tiltölulega einfaldar aðgerðir eins og til dæmis að auka upplýsingagjöf um áhrif plastnotkunar og gera almennar reglugerðarbreytingar, setja reglur sem banna notkun plastburðarpoka í matvöruverslunum, veita styrki til nýsköpunar, efla rannsóknir á plastmengun, skoða skattbreytingar á seinni stigum og svo mætti lengi telja.

Talið er að ef fer sem horfir verði meira um …
Talið er að ef fer sem horfir verði meira um plast en fiska í sjó árið 2050. Ljósmynd/Thinkstock

Mikill áhugi í samfélaginu

Guðfinnur bendir á að þrátt fyrir að mikil vakning hafi orðið undanfarið í samfélaginu á skaðsemi plasts í náttúrunni og fjölmargir, þar með taldar opinberar stofnanir, fyrirtæki og grasrótarsamtök, hafi gripið til ýmissa aðgerða til að sporna gegn þróuninni skorti samhæfingu og stefnumótun í þessum málaflokki.     

„Það er áhugi alls staðar í samfélaginu og mikil vitundarvakning um þessi mál. Áður en ég hóf vinnu við verkefnið fékk ég á tilfinninguna að það skorti samhæfingu. Ég fékk þetta staðfest og sá að margir starfa þvers og kruss við að gera margt gott en tala ekki nógu mikið saman. Þetta mun ekki duga til nema að við setjum á stofn einhvern samráðsvettvang svo hægri höndin viti hvað sú vinstri gerir,“ segir Guðfinnur. Efla mætti samvinnu aðila úr ýmsum áttum til að mynda milli grasrótarsamtakanna Bláa hersins sem hefur barist gegn plastmengun hafsins á Íslandi og hreinsað strendur,  Umhverfisstofnunar, Matís og Hafrannsóknastofnunar svo dæmi séu tekin.

Eitt er víst að það þarf að styrkja rannsóknir á þessu sviði hér á landi, að mati Guðfinns sem nefnir nýlega rannsókn á kræklingi við strendur Noregs. Hún sýndi að talsvert magn örplasts fannst í þeim og mest var hún í norðurhluta landsins. „Þetta kom vísindamönnum á óvart því þeir höfðu áður talið að hún væri minna fyrir norðan. Þetta sýnir okkur hvað þetta er lúmskt. Við vitum ekki nógu mikið og þurfum að rannsaka þetta líka hér,“ segir hann og vísar í íslenska vísindamenn sem telja enga ástæðu til að ætla að ástandið sé betra hér en í Noregi. Samvinna við önnur lönd á norðurhvelinu, s.s. Norðurlöndin sem og Rússa í baráttunni gegn plastmenguninni, hefði einnig talsverðan ávinning fyrir alla, að mati Guðfinns.

Plastpoki eða fjölnota innkaupapoki?
Plastpoki eða fjölnota innkaupapoki? mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Örplast í snyrtivörum og tannkremum     

Eitt af því þarf að bæta á Íslandi er skólphreinsun en henni er víða ábótavant og ákjósanlegt að koma upp tveggja þrepa hreinsikerfi. Víða um land rennur skólpið óhreinsað út í sjó. „Stór uppspretta örplasts kemur úr óhreinsuðu skólpi. Örplast er einnig að finna í snyrtivörum og tannkremum og er stundum vísvitandi bætt við,“ segir Guðfinnur.

Hann telur best að banna slíkar vörur sem og plastburðarpoka í matvöruverslunum. „Slík aðgerð myndi ekki bitna á valfrelsi neytandans. Við höfum áður í sögunni notað fjölnota poka og ekkert því til fyrirstöðu að taka það upp aftur,“ segir hann. Um 8% allra plastpoka enda í hafinu en það jafngildir um 5 milljónum plastpoka á Íslandi árlega. 

Fólk á erfitt með að breyta hegðun sinni

„Góðu fréttirnar eru þær að við erum að gera fjölmargt gott og rétt,“ segir Guðfinnur sem vill ekki vera svartsýnn. „Það er þekkt í fræðunum að þegar við stöndum frammi fyrir stórum vandamálum eins og þessum þar sem tölurnar eru gríðarlega háar og sláandi að það er eiginleiki mannsins að hann horfir á það sem er honum næst í tíma. Hann á erfiðara með að sjá fyrir sér eitthvað til framtíðar sem mun mögulega hafa áhrif á hann eftir áratugi. Þegar fólk þarf að breyta daglegum venjum sínum sem kallar mögulega á meiri vinnu er fólk síður tilbúið til þess þótt það komi því til góða þegar fram í sækir. Það er mannlegt,“ segir Guðfinnur.

„Ég er ekki að hanna heildarlausn vandans heldur bendi á möguleg fyrstu skref hér og nú. Rannsóknin er innlegg í þessa mikilvægu umræðu sem við verðum að halda áfram að halda á lofti,“ segir Guðfinnur.

Hann fékk fyrst áhuga á plastmengun þegar hann vann sem upplýsingafulltrúi og teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun árin 2014-2016. „Þetta er svo mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga að við megum ekki láta hjá líða að spyrna við fótum áður en það verður allt of seint. Hafið á það inni hjá okkur að við tökum þennan slag.“

Surtsey var hreinsuð sumarið 2016 en þar safnaðist mikið rusl …
Surtsey var hreinsuð sumarið 2016 en þar safnaðist mikið rusl og talsvert af plasti eins og sjá má. Ljósmynd/Borgþór Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert