Lestarslys í hægri endursýningu

„Sjálfsvíg snertir svo marga. Þeir sem fremja sjálfsvíg telja á …
„Sjálfsvíg snertir svo marga. Þeir sem fremja sjálfsvíg telja á stundum að þeir séu að gera sínum nánustu greiða en það er alrangt,“ segir Ferdinand. mbl.is/Golli

Ferdinand Jónsson geðlæknir segir umfjöllun um sjálfsvíg í fjölmiðlum afar vandmeðfarna og brýnt sé að fjölmiðlar komi sér upp verklagsferlum í því sambandi enda bendi rannsóknir til þess að óvarleg umfjöllun geti ýtt veiku fólki fram af brúninni.

Um fátt var meira rætt í fjölmiðlum síðsumars í fyrra en tvö sjálfsvíg á geðdeild Landspítalans með stuttu millibili. Meðal þeirra sem fylgdust grannt með umræðunni var Ferdinand Jónsson geðlæknir enda benda rannsóknir til þess að mikil umfjöllun um sjálfsvíg geti haft afdrifaríkar afleiðingar, einkum ef hún er óvarleg, og jafnvel ýtt fólki sem komið er á ystu nöf í sínu lífi fram af bjargbrúninni.

„Ég verð að viðurkenna að þessi umræða olli mér áhyggjum. Svona mikil umræða getur komið róti á fólk með sjálfsvígshugsanir og þess vegna verður að stíga varlega til jarðar. Ég skil vel að tvö sjálfsvíg á geðdeild þyki fréttnæm en ekki er sama hvernig um málið er fjallað,“ segir Ferdinand.

Orðið „þöggun“ ber með sér neikvæða merkingu en eigi að síður segir Ferdinand stundum betra að þegja en tala. Alltént stilla máli sínu í hóf. Hann nefnir í því sambandi herferð sem staðið var fyrir í Vínarborg á níunda áratugnum, þar sem fjölmiðlar sammæltust um að fjalla ekki um sjálfsvíg í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar. Leiddi það, að sögn Ferdinands, til 80% fækkunar sjálfsvíga. Hann tilgreinir einnig frægan sjónvarpsþátt um sjálfsvíg í Þýskalandi sem varð til þess að tíðni sjálfsvíga rauk upp. Til að reyna á orsakasamhengið var þátturinn endursýndur einhverjum misserum síðar með sömu afleiðingum. Ferdinand tekur fram að þessar rannsóknir séu ekki skotheldar en margt bendi þó til orsakatengsla.

„Það eru um fimmtíu rannsóknir á heimsvísu sem sýna þessi tengsl og margir í þjóðfélaginu vita af þessu, eins og til dæmis prestar og rannsóknarlögreglumenn. Af þeim sökum fara margar þjóðir mjög varlega í þessa umræðu.“

Var mjög áhyggjufullur

Ferdinand mun fjalla um þetta og fleira í erindi sínu, Fjölmiðlar og geðheilsan, á Læknadögum í Hörpu á miðvikudaginn. 

„Síðasta sumar hvatti ég kollega mína heima til að tala við fjölmiðla og biðja þá að draga úr umfjöllun sinni; það væri svo mikið í húfi. Svona mikil umræða getur verið stórhættuleg og þetta var eins og að horfa á lestarslys í hægri endursýningu. Tortryggni milli fjölmiðla og geðheilbrigðiskerfisins virtist mér koma sterkt fram. Við mennirnir erum félagsverur og alltaf einhverjir hópar í þjóðfélaginu sem líður illa og eru nálægt bjargbrúninni. Þetta getur orðið til þess að einhverjir hnikast nær brúninni og mörgum getur skrikað fótur. Sjálfsvíg snertir svo marga. Þeir sem fremja sjálfsvíg telja á stundum að þeir séu að gera sínum nánustu greiða en það er alrangt – sársaukinn dreifist bara á fjölskyldu, vini og kunningja. Og situr þar oft fastur.“

Viðtalið við Ferdinand í heild birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert