Flutningabíll fór út af á Holtavörðuheiði

Frá vettvangi á Holtavörðuheiði.
Frá vettvangi á Holtavörðuheiði. Ljósmynd/Birgir Guðmundsson

Flutningabíll fór út af á Holtavörðuheiði núna rétt fyrir hádegi og lenti bíllinn á hliðinni utan vegar. Einn maður var í bílnum, en að sögn vegfaranda sem kom að slysinu virtist maðurinn ekki mikið slasaður.

Slysið varð rétt norðan við háheiðina. Fljúgandi hálka er á staðnum og fór bílinn í snjóskafl utan við veginn.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Blönduósi er sjúkrabíll á leiðinni á staðinn en ekki er talið að maðurinn sé alvarlega slasaður. Hann komst af sjálfsdáðum út úr bílnum og bíður eftir lögreglu í bíl á vegum Vegagerðarinnar. Lögreglan er einnig á leiðinni á vettvang en mjög leiðinlegt veður er á þessum slóðum og sækist ferðin seint. 

Á Norðvesturlandi er hálka eða snjóþekja og skafrenningur eða éljagangur á flestum leiðum. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Vatnsskarði. Búið er að loka Öxnadalsheiði og athugað verður aftur kl. 13.00.  Á Norðausturlandi er hálka eða hálkublettir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert