Leitar sátta í stjórnarskrármálum

Katrín Jakobsdóttir var gestur Víglínunnar hjá Heimi Má Péturssyni í …
Katrín Jakobsdóttir var gestur Víglínunnar hjá Heimi Má Péturssyni í hádeginu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármálastefna ríkisins verður fyrsta málið sem lagt verður fram á þingi eftir jólafrí. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra en hún var gestur Víglínunnar á Stöð 2 í dag. Þing kemur saman á ný eftir jólafrí á mánudaginn og mun veturinn, að sögn Katrínar, einkennast af því að lagt verði af stað í ýmis stór verkefni til framtíðar, auk þess sem fjármál ríkisins verða fyrirferðarmikil á fyrstu vikum ársins.

Nefndi hún sérstaklega nauðsyn þess að ná sátt á þingi um áfanga í breytingum á stjórnarskrá, og tiltók auðlindaákvæði og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur en það voru þau mál sem hlutu mestan stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem efnt var til árið 2012 um drög að stjórnarskrá.

„Refsistefnan virkar ekki“

Katrín kom víða við í viðtalinu. Var hún meðal annars spurð út í áform heilbrigðisráðherra um að innleiða sérstök neyslurými fyrir fíkla þar sem þeim gefst kostur á að athafna sig í öruggu umhverfi. Slík rými er að finna víða í álfunni, meðal annars í Sviss.

Katrín sagði innleiðingu þeirra endurspegla stefnu ríkisstjórnarinnar. „Refsistefnan virkar ekki,“ sagði Katrín. „Við þurfum að snúa af þeirri leið. Það er sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af mikilli aukningu notkunar sterkra fíkniefna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert