92 framvísuðu fölsuðum skilríkjum

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Metfjöldi skilríkjamála kom til kasta flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum á síðasta ári. Þá komu upp samtals 92 mál þar sem framvísað var fölsuðum skilríkjum eða skilríkjum annarra. Árið á undan, 2016, hafði áður verið metár með samtals 62 skilríkjamál. Um er að ræða fjölgun mála upp á 48% milli ára.

Í flestum tilvikum á síðasta ári var um að ræða breytifölsuð skilríki eða í 39 tilvikum. Grunnfölsuð skilríki voru 21 talsins og 23 skilríkjum var framvísað af öðrum en lögmætum handhafa. Ólöglega útgefin skilríki þ.e. sem hafði verið stolið óútfylltum voru 9, segir í tilkynningu.

Hin ólögmætu skilríki voru frá 28 löndum, flest voru ítölsk og næstflest voru grísk. Þá komu Albanir langoftast við sögu í umræddum málum eða í 19 skipti af 92. Næstir voru Georgíumenn í 10 tilvikum. Alls kom við sögu fólk af 24 þjóðernum í þessum 92 málum.

Flest skilríkjamálanna komu upp í maímánuði eða 15, næstflest í desember eða 14 og svo 10 í september, samtals 39 mál. Hin málin 53 dreifðust svo á hina níu mánuðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert