Púðarnir ekki á réttum stöðum

Stefán Agnar Finnsson, yfirverkfræðingur hjá umhverfis- og tæknisviði Reykjavíkurborgar, segir að notkun svokallaðra „púða“ eða hraðahindrana sem eru hannaðar til að hlífa hjólabúnaði strætisvagna séu stundum viðbrögð við sérstökum aðstæðum. Í því samhengi nefnir hann púðana sem settir voru við Ánanaust. „Þar var verið að bregðast við hegðun ökumanna sem óku of hratt og reykspóluðu í götunni. Því var gripið til þessa ráðs,“ segir Stefán. 

Sömu sögu er að segja á Nauthólsvegi þar sem foreldrar barna í leikskóla Hjallastefnunnar höfðu kvartað yfir hraða umferðarinnar í grennd við skólann. Því var púðunum komið fyrir í götum þar sem hámarkshraðinn er 50 km/klst. Púðarnir eru þó gerðir til að hægja hraða bíla niður í um 15-20 km/klst.

Almennt er miðað við að hraðahindranir eigi að hægja á umferð um 10 km/klst. og því ætti hraðahindrun sem er í götu þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. að hægja umferðina niður í 40 km/klst. Fari bílar á þeim hraða yfir púðana verður höggið þó of þungt auk þess sem álagið á fjöðrunina er ójafnt. Stefán viðurkennir að hægt sé að gagnrýna þá ákvörðun að koma púðunum fyrir þarna en segir að ákvörðunin um að setja púðana niður við Ánanaust hafi verið tekin með stóru bílana sem aka um svæðið í huga.

Í kjölfar þess að mbl.is fjallaði um púðana fyrst bárust ábendingar um að hjóla- og fjöðrunarbúnaður bíla ætti það til að skemmast við að keyra yfir þá. Í gagnagrunni Samgöngustofu sem byggir á skoðunarskýrslum bifreiða eru vísbendingar um að slit á hjóla- og fjöðrun­ar­búnaði hafi auk­ist frá ár­inu 2010. Enn frem­ur seg­ir að hönn­un púðanna geti verið áhrifaþátt­ur­ í því sam­hengi þar sem þeir „gefi ekki jafna fjöðrun í öku­tækj­um“. Þó er tekið fram að aðrar ástæður geti haft áhrif. 

Í myndskeiðinu sem fylgir má sjá hvernig ökumenn grípa oft til þess ráðs að sveigja á milli púðanna í götunni enda er aksturshraði þeirra of mikill miðað við höggið sem er væntanlegt frá púðunum. Stefán segir að það sé þó ekki markmið hönnunarinnar að hægt sé að sveigja á milli þeirra.

Í svari Samgöngustofu við fyrirspurn mbl.is um þetta atriði segir að púðarnir beinlínis „skapi hættu og hafi lítinn tilgang“. Stefán segist hafa skoðað tölur um óhöpp í kringum púðana við Ánanaust og segir að ekki sé hægt að merkja aukningu á tíðni þeirra frá því að púðunum var komið fyrir. Hann bendir einnig á að púðarnir séu ekki séríslensk lausn eins fram hafði komið í fyrri fréttum mbl.is, því þeir séu gerðir að sænskri fyrirmynd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert