Fordæmalítið annríki á spítalanum

Landspítalinn. Óvenjumikið er um slys og veikindi þessa dagana.
Landspítalinn. Óvenjumikið er um slys og veikindi þessa dagana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikið álag hefur verið síðustu sólarhringa á Landspítalanum, enda mikið um slys og veikindi. Inflúensan sem algeng er í ársbyrjun er komin og margir leita til sjúkrahússins vegna hennar, RS-veiran minnir á sig og í hálkunni hefur verið talsvert um minniháttar slys, beinbrot og byltur.

Þá hefur eldra fólk með undirliggjandi sjúkdóma sem nú brjótast fram þurft mikið að leita á spítalann, þar sem verið hefur fordæmalítið annríki síðustu daga.

„Staðan er alvarleg og við höfum þurft að grípa til margvíslegra ráðstafana til þess að takast á við ástandið,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi, við Morgunblaðið.

Þjónustu við sjúklinga sem á deildina koma er forgangsraðað eftir bráðleika, en þegar fyrstu meðhöndlun á sjúkrahúsinu er lokið þurfa margir að leggjast inn á deildir á lyf-, handlæknis- og flæðisviði. Rúm þar til ráðstöfunar eru 419 og í gær var hvert þeirra skipað og vel það; nýtingin var komin í 116%. Því lágu margir á göngum, setustofum og slíkum stöðum.

Flensufaraldur er framundan

„Fólki með minniháttar veikindi vísum við á heilsugæsluna, hjúkrunarheimilin hafa verið beðin um að taka inn í ríkari mæli í hvíldarinnlögn eldra fólk sem kemst ekki heim og þarf að öðrum kosti að vera hér á sjúkrahúsinu og teppir rúm hér. Eins er reynt að koma sjúklingum utan af landi sem fyrst inn á sjúkrahúsin í sinni heimabyggð. Þá höfum við kallað fólk af frívöktum til vinnu hér á bráðadeildinni. Allt er þetta hluti af stórri mynd; því mikla álagi sem stundum skellur á sjúkrahúsunum og við þurfum að vera viðbúin. Vegna þessa höfum við verið í sambandi við velferðarráðuneytið og fleiri til þess að taka á málinu. Geta haldið sjó meðan það mesta gengur yfir,“ segir Jón Magnús.

Síðdegis í gær höfðu um 180 manns leitað þann dag til bráðadeildarinnar sem er svipað og meðaltal hvers sólarhrings. Þá var vísast eftir sá kúfur sem gjarnan er á kvöldin. „Og þetta er ekkert búið; inflúensufaraldurinn á eftir að ná hámarki og verður væntanlega fram í febrúar. Fyrstu mánuðir ársins eru alltaf annatími á sjúkrahúsinu en ástandið nú er þó óvenjulega erfitt,“ segir Jón Magnús.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert