Vill finna Landspítala nýjan stað

Anna Kolbrún Árnadóttir og Svandís Svavarsdóttir
Anna Kolbrún Árnadóttir og Svandís Svavarsdóttir Myndir/Alþingi

„Undanfarin misseri hafa raddir þeirra aukist sem vilja finna þjóðarsjúkrahúsinu nýjan stað til langrar framtíðar og í ljósi þess er ástæða til að vekja athygli á málinu hér í þingsal,“ sagði Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins og málshefjandi sérstakrar umræðu um staðsetningu þjóðarsjúkrahússins á Alþingi í dag.

Anna Kolbrún sagði meðal annars að aðgengi að spítalanum væri ekki í lagi og spurði hvað kæmi í veg fyrir að ný staðarvalsgreining væri gerð um framtíðarstaðsetningu Landspítalans. Þá spurði Anna Kolbrún einnig hver hugur starfsmanna spítalans til núverandi áætlana um uppbyggingu við Hringbraut væri.

„Það er alveg ljóst að skipulag og aðgengi hefur breyst. Þungamiðja fjölda íbúa er ekki lengur í radíus í kringum Hringbraut,“ sagði Anna Kolbrún í ræðu sinni. Hún sagði að það mætti velta því fyrir sér hvort fólk „yrði ekki bara fljótara í förum“ ef að spítalinn yrði reistur nær íbúunum sjálfum, t.d. í Keldnaholti eða á Vífilsstöðum.

Niðurstaðan hefur alltaf orðið sú sama

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra veitti andsvar og sagði gott að fá tækifæri til að fara yfir aðdraganda þeirrar ákvörðunar um staðsetningu Landspítala við Hringbraut árið 2002 og hvaða áhrif það hefði að breyta þeirri ákvörðun nú.

„Á þessum 16 árum sem liðin frá því að ákvörðun um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut lá fyrir hefur málið reglulega verið tekið upp að nýju. Formleg athugun hvort ástæða væri til að breyta staðarvalinu var gerð 2008, en niðurstaðan varð sú sama og fyrr, það er að besta staðsetningin fyrir nýtt háskólasjúkrahús væri við Hringbrautina,“ sagði Svandís.

Hún sagði mörghundruð starfsmenn spítalans hafa tekið þátt í miklum fjölda vinnuhópa og að á meðal þeirra hefði verið einhugur um staðsetninguna. Á stórum vinnustað mætti þó eflaust finna einhverja sem ekki vilji byggja upp við Hringbraut, en sú umræða hafi aldrei verið hávær innan spítalans.

„Læknaráð, hjúkrunarráð og starfsmannaráð Landspítalans hafa reglulega ályktað til stuðnings þessarar byggingu,“ sagði Svandís.

Hún lagði áherslu á að ef sú lausn yrði valin að finna spítalanum nýjan stað myndi það seinka því að nýr spítali verði tekinn í notkun, um tíu til fimmtán ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert