Undrast þögn Reykjavíkurborgar

Bjarnheiður undrast að Reykjavíkurborg og þingmenn borgarinnar beiti sér ekki …
Bjarnheiður undrast að Reykjavíkurborg og þingmenn borgarinnar beiti sér ekki fyrir betri vegarbótum á Kjalarnesi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Sveitarfélögin á Vesturlandi hafa undanfarið tekið undir með þeim íbúum sem krefjast vegabóta á Kjalarnesi. Yfir 3000 manns eru í Facebook-hóp þar sem þess er krafist að vegabætur verði gerðar frá Kollafirði og að Hvalfjarðargöngum.

Stofnandi hópsins, Bjarnheiður Halldórsdóttir, undrast þögn Reykjavíkurborgar og þingmanna Reykjavíkurborgar um málið, sérstaklega í ljósi þess að samgöngumál séu eitt heitasta málið í Reykjavík um þessar mundir.

„Er borgin sofandi á verðinum eða hefur hún bara einfaldlega engan áhuga á þessum fjölfarna vegi sem tilheyrir borgarlandinu? Engar áhyggjur af öryggi íbúa á Kjalarnesi, eða þeirra þúsunda Reykvíkinga sem nota veginn reglulega? Þögnin er allavega ærandi,“ segir Bjarnheiður á Facebook.

Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og meðlimur í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar, segir skiljanlegt að þrýstingurinn komi aðallega frá sveitarfélögunum norðan Hvalfjarðarganga vegna þess að íbúar á því svæði séu stór hluti þeirra sem noti veginn daglega.

Hann segir þó að vinna sé hafin við að gera skipulagsráðstafanir af hálfu Reykjavíkurborgar til að hægt sé að breikka veginn. Málið hafi verið tekið fyrir í ráðinu.

„Fyrir nokkrum mánuðum síðan vorum við með í umhverfis- og skipulagsráði teikningar að breikkuðum vegi. Þá var talað um að breikka á Kjalarnesinu sjálfu en ekki á Kollafirði, vegna Sundabrautar,“ segir Halldór.

„En það er nú svosem búið að tala um Sundabraut í 30-40 ár. Allavega er farið að undirbúa það að skipulagslega verði hægt að breikka,“ segir Halldór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert