Sundurleit stjórnarandstaða

Alþingi Íslands.
Alþingi Íslands. mbl.is/​Hari

Í sögulegum skilningi er ríkisstjórnin sem nýlega tók við völdum í landinu óvenjulega samsett. Af því leiðir að við hljótum að vera með óvenjulega samsetta stjórnarandstöðu sem hefur þess utan ekki í annan tíma samanstaðið af fleiri flokkum, fimm talsins. Hvað þýðir þetta? Hvernig mun stjórnarandstöðunni ganga að standa saman að því að veita ríkisstjórninni aðhald?

„Ég hef ekki trú á því að stjórnarandstaðan muni ganga í takt á kjörtímabilinu af þeirri einföldu ástæðu að flokkarnir eru svo ólíkir,“ segir Birgir Guðmundsson, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.

Þarna er Birgir að tala um stjórnarandstöðuna í heild; einstakir flokkar komi örugglega til með að ná ágætlega saman og nefnir hann Samfylkinguna og Pírata í því sambandi og jafnvel Flokk fólksins. „Ég á hins vegar erfitt með að sjá að það verði góður samhljómur með þessum flokkum og til dæmis Miðflokknum. Það er ekki augljós flötur á samstarfi þeirra á milli. Bæði er sýn þessara flokka ólík að ekki sé talað um gamlar væringar. Ég hef ekki trú á því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hafi yfirhöfuð áhuga á því að ganga í takti við Samfylkinguna og Pírata, jafnvel þótt það yrði til þess að koma höggi á stjórnina. Hann vill miklu frekar eiga sviðið, þannig lagað. Það getur reyndar líka átt við um Loga Má Einarsson, formann Samfylkingarinnar.“

Að mati Birgis er líklegt að skotmörkin verði ólík. Miðflokkurinn muni hamast á Framsóknarflokknum, rukka hann ótt og títt um kosningaloforðin og saka hann um að selja sál sína. Sama gildi um Samfylkinguna gagnvart Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og jafnvel Pírata líka. Þessir flokkar muni fylgja VG eins og skugginn.

Birgir segir erfiðara að glöggva sig á því hvar Viðreisn muni staðsetja sig. „Viðreisn er svolítið milli steins og sleggju á þinginu. Mín spá er sú að hún muni að hluta til dansa með Pírötum og Samfylkingunni, til dæmis í jafnréttismálunum, en alls ekki að öllu leyti og þá er ég að tala svolítið út frá viðbrögðum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, við kröfum um afsögn Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra.“

Spurður hvaða flokkur hann haldi að komi til með að græða mest á því að vera í stjórnarandstöðu á kjörtímabilinu nefnir Birgir fyrst Samfylkinguna. Hún hafi þegar hafið endurkomu sína sem hinn „eini og sanni krataflokkur Íslands“ og komi til með að hagnast á því að skiptar skoðanir eru meðal kjósenda VG á samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. „Samfylkingin verður eins og Kató gamli: Auk þess legg ég til... Hún mun ekki þreytast á því að tala um fátækt og stéttaskiptingu í landinu. Logi er þegar farinn að hljóma svolítið eins og Johnny Cash íslenskra stjórnmála, sem klæddist svörtu til að minna á hina hrjáðu og smáðu – nema hvað Logi klæðist röndóttu!“

Birgir telur hins vegar að Miðflokkurinn gæti átt undir högg að sækja enda eigi það betur við formanninn að vera í stjórn en stjórnarandstöðu. Hann sé þeirrar gerðar að hann þurfi að koma hlutum í verk. „Annars gæti kjörtímabilið líka farið vel fyrir Miðflokkinn, þó það sé ólíklegra. En það verður, að mínu mati, ekkert þar á milli; annaðhvort mun þetta fara vel fyrir flokkinn eða illa.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert