Kjánahrollur fór um Ragnar Þór

Ragnar Þór Ingólfsson.
Ragnar Þór Ingólfsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að kjánahrollur hafi farið um sig þegar hann las ummæli Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, í Morgunblaðinu í morgun um að afskipti Ragnars Þórs af Eflingu, öðru félagi í ASÍ, væru fordæmalaus.

Gagnrýndi Gylfi stuðning Ragnars Þórs við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, sem býður sig fram sem formann Eflingar.

„Ég hef margoft horft upp á bein afskipti ASÍ af málefnum annarra stéttarfélaga. Ákveðnir aðilar hafa gengið svo langt að vinna gegn öðrum formönnum séu þeir líklegir til að gera betur en gjaldþrota hugmyndafræði örfárra um hvað sé nægilega hóflegt hverju sinni,“ skrifar Ragnar Þór á Facebook-síðu sína.

„Gylfi hefur ítrekað reynt að hafa áhrif á innri málefni VR. Meðal annars með beinum tölvupóstsendingum á stjórn og trúnaðarráð félagsins. Hann á örfáa bandamenn innan stjórnar VR sem virðast halda honum vel upplýstum um gang mála. Þeir aðilar munu leggja sín störf í dóm félagsmanna í mars.“

Ragnar Þór bætir við að í hvert skipti sem ræði eigi mikilvæg málefni innan baklandsins byrji tölvupóstsendingar Gylfa.

„Ég man ekki eftir viðlíka afskiptum forseta ASÍ af innri málum VR síðan ég tók sæti í stjórn félagsins fyrir 9 árum síðan. Líklega er það vegna þess að hann hefur ekki talið þörf á því hingað til þar sem valdastrúktúr hreyfingarinnar hefur ekki verið ógnað fyrr en nú. Þannig mætti kalla afskipti Gylfa fordæmalaus,“ skrifar hann og hvetur Gylfa til að setja störf sín í dóm yfir 100 þúsund félagsmanna ASÍ.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert