Skammist sín ekki fyrir léleg kjör

Sólveig Anna Jónsdóttir á fundinum Vor í Verkó sem var …
Sólveig Anna Jónsdóttir á fundinum Vor í Verkó sem var haldinn í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framboðslisti undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttir hefur lokið við að safna þeim 120 undirskriftum sem skila þarf inn fyrir klukkan 16 í dag vegna mótframboðs til stjórnar Eflingar.

Sólveig og félagar hafa verið dugleg við að fara á milli vinnustaða og ræða við fólk. Þegar mbl.is hafði samband við hana var hún á leiðinni á leikskólann þar sem hún starfar. „Vonandi get ég sannfært konurnar þar um að skrifa undir,“ segir Sólveig og telur frekar líklegt að það muni takast. 

Hún stefnir á að safna eins mörgum undirskriftum og hægt er og skila þeim af sér klukkan 14.

Tjáir sig ekki um ASÍ

Aðspurð segir hún ekki tímabært á meðan undirskriftasöfnun er í gangi að tjá sig um forystu ASÍ og þau ummæli Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, um að Gylfa Arnbjörnssyni væri ekki lengur sætt sem forseta ASÍ ef Sólveig og hennar framboðslisti næðu kjöri.

Frá fundinum Vor í Verkó þar sem framboð Sólveigar Önnu …
Frá fundinum Vor í Verkó þar sem framboð Sólveigar Önnu var tilkynnt. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fráleit og svívirðileg“ kjör

Spurð nánar út í framboðið segir hún að fjöldi fólks hafi komið að máli við sig. Hún hafi í gegnum tíðina mest verið að benda á kjör láglaunakvenna „sem eru algjörlega fráleit og svívirðileg“ og þátt sveitarfélaganna og borgarinnar í því að vera með „her kvenna og auðvitað karla líka á lægstu mögulegu launum“.

„Það var málflutningur sem höfðaði greinilega til fólks. Um leið og láglaunafólk innan Eflingar fer að tala saman kemur í ljós að við erum öll að glíma við sömu vandamálin. Sumt fólk lifir við óboðlegar aðstæður,“ segir hún og nefnir dæmi um íslenska konu á sextugsaldri sem lendir í erfiðum skilnaði og stendur uppi slypp og snauð. Tekjurnar hennar séu svo lágar að hún getur bara leigt nánast óíbúðarhæft húsnæði.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert

Lagast ekki af sjálfu sér

„Ástandið bara versnar. Við teljum að verkalýðsbarátta eigi að snúast um þessi mál. Kjör fólksins sem lifir og starfar í þessu óásættanlega umhverfi sem íslensku verkafólki er boðið upp á um þessar mundir."

Hún bætir við að ástandið sé „algjörlega fáránlegt“ miðað við að nú teljist vera góðæri í samfélaginu. „Verkafólk hefur það almennt ekki gott en þegar maður talar við fólk af erlendum uppruna sem kemur hingað til að vinna heyrir maður sögur sem eru með ólíkindum. Við erum búin að horfast í augu við að þetta er ekki að fara að lagast af sjálfu sér. Ef við viljum að þetta breytist þurfum við sjálf að taka slaginn og reyna að búa aftur til pláss í íslensku samfélagi fyrir fólk sem tilheyrir verkamannastétt.“

Eiga ekki að skammast sín

Að sögn Sólveigar hafa heimsóknir hennar og hinna á framboðslistanum á vinnustaði gengið mjög vel. „Það er mikilvægt að fólk hittist og tali saman og sé ekki lengur að skammast sín fyrir léleg kjör heldur viðurkenni fyrir sjálfum sér og öðrum að við berum ekki ábyrgð á þessu ástandi. Það eru atvinnurekendur, sveitarfélögin, ríkið og náttúrulega verkalýðsforystan sem hefur ekki barist fyrir hagsmunum okkar,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert